Viðskipti erlent

Bandarísk kona er launahæsti forstjóri Bretlands

Angela Ahrendts.
Angela Ahrendts.

Ný úttekt leiðir í ljós að bandaríska konan Angela Ahrendts var launahæsti forstjórinn í Bretlandi í fyrra. Angela er forstjóri Burberry og námu árslaun hennar rétt tæpum 17 milljónum punda eða tæplega 3,2 milljörðum kr.

Í frétt um málið á CNNMoney segir að laun Angelu hafi verið 5 milljónum punda hærri en laun Angus Russell forstjóra lyfjarisans Shire sem var annar í röðinni hvað launahæstu forstjórana varðar.

Þá kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti undanfarin 15 ár, eða frá því að farið var að gera þessa úttekt, að kona situr í fyrsta sæti yfir launahæstu forstjóra Bretlands.

Angela tók við Burberry tískuhúsinu árið 2006 og henni er þakkaður sá viðsnúningur sem orðið hefur í rekstrinum frá þeim tíma.

Tekið er fram í fréttinni að Angela sé ekki aðeins launahæsti forstjórinn heldur einnig sá best klæddi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×