Viðskipti erlent

Íslendingar eru láglaunamenn í Danmörku

Í nýjum tölum um laun útlendinga í Danmörku kemur fram að Íslendingar eru láglaunamenn þar í landi. Íslendingar, ásamt Tyrkjum, eru með sjöundu lægstu launin af öllum útlendingum.

Það er Efnahagsráð dönsku verkalýðshreyfingarinnar sem tekið hefur þessar upplýsingar saman. Þar kemur fram að Íslendingar og Tyrkir eru með að jafnaði 15.400 danskar kr. í mánaðarlaun eða sem svarar til um 330.000 kr.

Lægst launuðu útlendingarnir í Danmörku eru Búlgarar með 9.500 danskar kr. í mánaðarlaun eða um 203.000 kr. Næstir koma Pakistanar með 12.300 danskar kr., þá Rúmenar með 13.500 danskar kr. og síðan Úkraínumenn, Litháar og Lettar.

Næst fyrir ofan Íslendinga og Tyrki eru svo Ungverjar með 15.600 danskar kr. í mánaðarlaun og Pólverjar sem hafa 18.100 danskar kr. í laun að meðaltali.

Í frétt um málið á vefsíðu danska ríkisútvarpsins kemur fram að forráðamenn dönsku verkalýðshreyfingarinnar hafa miklar áhyggjur af því að danskir atvinnurekendur nýti sér ódýran starfskraft útlendinga í styttri tímabilum. Þetta eigi einkum við um byggingastarfsemi og hreingerningar. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×