Viðskipti erlent

iPad 2 getur verið lífshættuleg fyrir hjartveika

Ný rannsókn leiðir í ljós að iPad 2 spjaldtölvan getur verið lífshættuleg fyrir þá hjartveiku einstaklinga sem þurfa að nota gangráði.

Þetta kemur fram í frétt á Bloomberg fréttaveitunni. Þar segir að þeir 30 litlu seglar sem eru til staðar í iPad 2 geti undir vissum kringumstæðum stöðvað gangráðina.

Það var aðeins 14 ára gömul stúlka, Gianna Chien sem vann þessa rannsókn en hún stundar nám við John Hopkins háskólann fyrir hæfileikaríka unglinga í Baltimore.

Af 26 hjartasjúklingum sem Chien rannsakaði og ganga með gangráði kom í ljós að í 30% tilvika hafi iPad 2 áhrif á gangráðina.

„Ef einstaklingur sofnar með iPad á brjóstinu geta seglarnir í honum sett gangráðinn úr skorðum,“ segir Chien. „Ég tel að margir viti ekki af þessu.“

Rannsókn Chien hefur vakið mikla athygli vestan hafs og var stúlkan fengin til að greina frá rannsókn sinni á ráðstefnu 8.000 lækna í Denver fyrir helgina.

Apple hefur enn ekki brugðist við niðurstöðum Chien að öðru leyti en benda á að í leiðarvísinum með iPad 2 komi fram að þeir sem þurfa að nota gangráði eigi að halda iPad 2 í að minnsta kosti 15 sentimetra fjarlægð frá kroppinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×