Viðskipti erlent

Fjármálaráðherra endurhannar óskiljanlega undirskrift sína

Undirskrift Lew fyrir og eftir skipun hans í stöðu ráðherra.
Undirskrift Lew fyrir og eftir skipun hans í stöðu ráðherra.
Jack Lew fjármálaráðherra Bandaríkjanna hefur neyðst til þess að endurhanna undirskrift sína. Áður var hún óskiljanlegt krúsidúllupár sem samanstóð af nokkrum hringjum en nú er undirskriftin orðin það skiljanleg að lesa má nafn ráðherrans.

Eitt af störfum Jack Lew sem fjármálaráðherra er að setja undirskrift sína á alla dollaraseðla sem prentaðir eru í Bandaríkjunum. Án þessarar undirskriftar eru seðlarnir verðlausir.

Lew hefur lengi verið legið á hálsi fyrir undirskrift sína. Sú gagnrýni ágerðist þegar hann tók formlega við embætti fjármálaráðherra í janúar s.l. Jafnvel Barack Obama Bandaríkjaforseti gerði grín að undirskriftinni þegar hann setti Lew í embættið. Sagði forsetinn við það tækifæri að vonandi yrði a.m.k. einn stafur í undirskrift ráðherrans læsilegur svo „gjaldmiðill okkar beri ekki skaða af“, eins og forsetinn orðaði það.

Hin nýja undirskrift Lew var prufukeyrð í síðasta mánuði þegar fjármálaráðuneytið sendi frá sér árlega skýrslu sína um fjármálastöðugleika landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×