Undanúrslit í Lengjubikar kvenna fóru fram í dag en þá tryggðu Valur og Stjarnan sér sæti í úrslitaleiknum.
Rúna Sif Stefánsdóttir tryggði Stjörnunni 1-0 sigur á Breiðabliki í fyrri leik dagsins en markið skoraði hún á 66. mínútu.
Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit í leik Vals og Þórs/KA eftir 1-1 jafntefli.
Elín Metta Jensen kom Val yfir í fyrri hálfleik en Katla Ósk Káradóttir jafnaði metin í upphafi þess síðari. Valur hafði svo betur eftir æsispennandi vítaspyrnukeppni, 6-5, og fagnaði því góðum sigri.
Úrslitaleikurinn fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ á sunnudaginn næstkomandi.
Upplýsingar um markaskorara frá úrslit.net.
