Viðskipti erlent

Nordea sektað um 600 milljónir vegna peningaþvættis

Fjármálaeftirlit Svíþjóðar hefur sektað Nordea bankann, stærsta banka Norðurlandanna, um 30 milljónir sænskra kr. eða tæplega 600 milljónir kr. vegna brota á reglum Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Í frétt um málið á vefsíðu börsen segir að fjármálaeftirlitið hafi áður gefið Nordea bankanum aðvaranir um að fara eftir þessum reglum en bankinn hafi ekki farið að tilmælum eftirlitsins.

Í tilkynningu frá fjármálaeftirlitinu segir að brot Nordea séu alvarleg og hafi staðið yfir í langan tíma. Þar sem bankinn hafi ekki farið eftir fyrrgreindum reglum hafi hann gefið einstaklingum, sem voru á svörtum listum, aðgang að fé og efnahagstækifærum. Þar að auki hafi verulega skort á upplýsingagjöf frá Nordea þegar kom að reikningum sem höfðu verið frystir að kröfu hins opinbera.

Í tilkynningu frá Nordea bankanum segir að stjórn hans telji að sektin sé alltof há. Hinsvegar viðurkennir bankinn brotalamir þegar kemur að innleiðingu fyrrgreindra reglna í starfsemi bankans og segir að það muni verða leiðrétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×