Fótbolti

Bobby Charlton: Bayern vinnur Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bobby Charlton.
Bobby Charlton. Mynd/NordicPhotos/Getty
Knattspyrnugoðsögnin Bobby Charlton, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, hefur mesta trú á Bayern München í Meistaradeildinni nú þegar lið hans er fallið úr keppni.

Bayern München slær líklega síðasta enska liðið út úr Meistaradeildinni í kvöld þegar liðið fær Arsenal í heimsókn en Bæjarar unnu fyrri leikinn 3-1 í London.

„Ef ég á að nefna eitt lið þá spái ég því að Bayern München vinni Meistaradeildina," sagði Bobby Charlton við þýska netmiðilinn Sport 1.

„Borussia Dortmund er líka einstakur fótboltaklúbbur með ótrúlega stuðningsmenn. Þeir eru líka í hópi með sigurstranglegustu liðunum í Meistaradeildinni," sagði Bobby Charlton.

Bayern München á möguleika á því að vinna þrennuna í ár í fyrsta sinn í sögu félagsins en liðið er með yfirburðarstöðu í þýsku deildinni, komið í átta liða úrslit bikarsins og á góðri leið með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Bayern München er búið að vinna 30 af 36 mótsleikjum sínum á tímabilinu þar af 5 af 7 leikjum í Meistaradeildinni með markatölunni 18-8.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×