Fótbolti

Kahn: Bayern hefur aldrei verið með betra lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oliver Kahn
Oliver Kahn Mynd/Nordic Photos/Getty
Oliver Kahn, fyrrum markvörður og fyrirliði Bayern München og þýska landsliðsins, fer lofsamlegum orðum um núverandi lið Bayern München sem getur enn unnið þrefalt í vor.

Bayern München er með yfirburðarforystu í þýsku deildinni, sló Dortmund út úr þýska bikarnum á dögunum og vann 3-1 útisigur á Arsenal í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Það var rétt hjá Felix Magath að segja að þetta sé besta lið Bayern frá upphafi," sagði Oliver Kahn í viðtali við Kicker.

„Varnarlína liðsins er stórkostleg og þeir hafa magnaða möguleika í sóknarleiknum. Ég spilaði með Bayern í fjórtán ár og mann ekki eftir slíku yfirburðarliði," sagði Kahn.

„Áhugavert tímabil gæti verið gengið í garð og það eru líkur á því að þýska deildin verði ekki mjög spennandi á næstu árum. Bayern á raunhæfa möguleika á að vinna þrennuna í ár," sagði Kahn.

Oliver Kahn vann 23 titla með Bayern München á sínum tíma þar af þýska meistaratitilinn átta sinnum frá 1997 til 2008. Hann komst næst því að vinna þrennuna 2001 þegar Bayern vann bæði Meistaradeildina og þýsku deildina en datt snemma út úr bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×