Fótbolti

Beckham: Með sömu ástríðu og þegar ég var 21 árs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Mynd/Nordic Photos/Getty
David Beckham spilar sinn fyrsta Meistaradeildarleik í þrjú ár í kvöld þegar lið hans Paris Saint-Germain tekur á móti Valencia í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum keppninnar.

Beckham lék síðasta í Meistaradeildinni þegar AC Milan steinlá 0-4 á móti Manchester United á Old Trafford 10. mars 2010 en það var seinni leikur liðanna í sextán liða úrsltum. Þá var Beckham 34 ára en nú er hann orðinn 37 ára gamall.

„Ég get kannski ekki hlaupið eins mikið og þegar ég var 21 árs en ég mun reyna," sagði David Beckham í viðtali við Sky Sports.

„Ég get enn hlaupið um völlinn og spilað frá mér boltanum. Ástríða mín til leiksins hefur ekkert breyst, orkan er eins og sigurviljinn er sá sami. Ég hef ekki breyst sem leikmaður," sagði Beckham.

Paris Saint-Germain vann fyrri leikinn 2-1 á útivelli og er því í góðum málum en verður þó án Zlatan Ibrahimovic sem var rekinn útaf í leiknum á Spáni.

„Það gerir þetta aðeins erfiðara fyrir okkur að vera án Zlatans en liðið hefur allt til alls til þess að komast áfram," sagði David Beckham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×