Fótbolti

Messi: Við vitum hvað er að

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lionel Messi tjáði sig um slæmt gengi Barcelona-liðsins í gær en liðið er búið að tapa þremur stórleikjum á stuttum tíma, einum í Meistaradeildinni á móti AC Milan og svo tveimur á nokkrum dögum á móti erkifjendunum í Real Madrid.

„Það er augljóst að við þurfum að leggja meira á okkur. Við vitum hvað vandamálið var í þessum tapleikjum og við höfum rætt það í búningsklefanum. Sú umræða fer þó ekki út fyrir klefann," sagði Lionel Messi.

„Við höfum verið að tapa okkar leikjum að undanförnu og það þarf að breytast. Næsti leikur er lykilleikur fyrir okkur að rífa liðið upp og gera nauðsynlegar breytingar," sagði Messi.

Tito Vilanova hefur ekki getað stýrt Barcelona-liðinu vegna baráttu sinnar við krabbamein og Messi segir það hafa mikil áhrif.

„Það hefur haft mikil áhrif á alla og hefur tekið sinn toll. Þetta er samt sterkur klefi og við getum ekki notað þetta sem afsökun. Við þurfum að koma til baka á móti AC Milan. Við vitum að það verður erfitt en við höfum trú á því að við getum það," sagði Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×