Fótbolti

Lennon: Er fótboltinn öðruvísi á Spáni og Ítalíu?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Neil Lennon, stjóri Celtic, segir að lokatölur leiksins gegn Juventus í kvöld gefi ekki rétta mynd af leiknum.

Juventus vann 3-0 sigur á baráttuglöðum leikmönnum Celtic sem komust þó nokkrum sinnum nálægt því að skora í leiknum.

„Við vorum mun betra liðið í 70 mínútur en það hefur ekkert lið efni á því að gefa andstæðingnum ódýr mörk," sagði Lennon.

„Við tókum áhættu með því að nota Efe Ambrose en hann var slakur í fyrsta markinu og missti af góðu tækifæri til að jafna leikinn. Við hættum svo þegar þeir skoruðu annað og þriðja markið."

Það vakti athygli þegar að leikmenn liðanna tókust á í teignum fyrir föst leikatriði, eins og hornspyrnur. Stephan Lichsteiner, leikmaður Juventus, þótti ganga sérstaklega hart fram.

„Ég myndi vilja spyrja dómarann hvort að knattspyrna væri öðruvísi á Spáni og Ítalíu. Í hvert einasta skipti sem okkar manni var ýtt í teignum átti að dæma brot. Við spiluðum við Juventus fyrir tólf árum síðan og Chris Sutton fékk víti í svipuðum aðstæðum."

Lennon segir ljóst að Celtic þurfi kraftaverk til að komast áfram. „Svona er veruleikinn í Meistaradeildinni. Hann er grimmur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×