Fótbolti

Ancelotti: Rauða spjaldið kom mér á óvart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan gengur framhjá Carlo Ancelotti.
Zlatan gengur framhjá Carlo Ancelotti. Nordic Photos / Getty Images
Carlo Ancelotti segir að brot Zlatan Ibrahimovic í leik Valencia og PSG í Meistaradeild Evrópu í kvöld hafi ekki verðskuldað rautt spjald.

PSG vann 2-1 sigur eftir að hafa haft talsverða yfirburði í leiknum. En Valencia minnkaði muninn í lok venjulegs leiktíma og Zlatan fékk svo að líta rauða spjaldið í uppbótartíma.

„Þetta var bara venjuleg tækling og ekkert sérstakt við hana," sagði Ancelotti en hann er stjóri PSG. „Rauða spjaldið kom mér mjög á óvart."

„Við spiluðum annars virkilega vel og við verðum að vera ánægðir með það. En lokin á leiknum voru ekki góð fyrir okkur."

„Valencia er með gott lið og nú er fyrri hálfleiknum lokið í þessari rimmu. Við ætlum ekki að gefa eftir í seinni hálfleiknum."

David Beckham var á meðal áhorfenda í kvöld en hann er nýgenginn til liðs við PSG. „Hann æfði sjálfur í eina viku en mætir á æfingu hjá liðinu á morgun. Ég held að það verði ekki vandamál að láta hann spila og hann mun styrkja liðið," sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×