Fótbolti

Messi hjá Barcelona til 2018

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi skrifaði í dag undir nýjan fimm ára samning við spænska stórveldið Barcelona. Messi átti tvö ár eftir af gamla samningnum.

Fréttirnar koma ekki á óvart enda búið að gefa út að nýr samningur væri í vændum. Messi hefur verið valinn besti knattspyrnumaður heims undanfarin fjögur ár en hann kom fyrst til Barcelona aðeins þrettán ára gamall.

Hann spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði Barcelona í nóvember árið 2003 en hann var þá sextán ára gamall. Það var í æfingaleik gegn Porto en kappinn spilaði sinn fyrsta deildarleik ári síðar.

Messi hefur þá spilað meira en 350 leiki í öllum keppnum með Barcelona og skorað í þeim tæplega 300 mörk. Hann hefur bætt ótal met og virðist hvergi nærri hættur. Þetta tímabilið hefur hann skorað 34 mörk í aðeins 22 deildarleikjum.

Messi verður 31 árs gamall þegar nýi samningurinn rennur út en hann hefur áður sagst vilja klára ferilinn hjá Barcelona.

Myndband af ferli Messi má sjá hér efst í fréttinni og hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×