Fótbolti

Barcelona aftur á sigurbraut með stórsigri

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Barcelona gjörsigraði Getafe 6-1 í hádegisleik dagsins í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Messi skoraði aðeins eitt mark í leiknum en yfirburðir Barcelona í leiknum voru algjörir.

Það tók Alexis Sanchez aðeins sex mínútur að skora fyrsta mark leiksins og sjö mínútum síðar kom Messi Barcelona í 2-0. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.

Barcelona hafði gert tvö jafntefli í röð í deildinni en liðið var aldrei líklegt til að misstíga sig í dag.

David Villa skoraði þriðja mark leiksins á 13. mínútu seinni hálfleiks en fjögur mörk voru skoruð á ellefu síðustu mínútum leiksins.

Tello kom Barcelona í 4-0 á 79. mínútu en fjórum mínútum síðar minnkaði Alvaro muninn í þrjú mörk.

Iniesta hirti upp boltann þegar einleikur Messi í teignum var stöðvaður og skoraði fimmta mark Barcelona á 90. mínútu. Enn var tími fyrir Pique að bæta við marki þó aðeins tveimur mínútum hafi verið bætt við venjulegan leiktíma og 6-1 sigur staðreynd.

Barcelona lyfti sér upp í 62 stig, 12 stigum á undan Atletico Madrid sem á leik til góða og 16 stigum á undan Real Madrid sem er í þriðja sæti.

Getafe er í 12. sæti með 29 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×