Fótbolti

Laporta vildi ekki fá Cristiano Ronaldo til Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki með Manchester United.
Cristiano Ronaldo fagnar marki með Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joan Laporta, fyrrum forseti FC Barcelona, segir að hann hafi á sínum tíma fengið tækifæri til að fá Cristiano Ronaldo til Barcelona. Ronaldo fór þess í stað til Manchester United og er nú leikmaður erkifjendanna í Real Madrid.

Cristiano Ronaldo var þá aðeins 18 ára og leikmaður með portúgalska liðinu Sporting. Manchester United keypti hann á 15 milljónir evra í ágúst 2003 en aðeins eftir að Barcelona hafði sagt nei.

„Mendes bauð okkur Cristiano Ronaldo og fyrir minni pening en United borgaði fyrir hann. Við áttum bara ekki pening fyrir honum á þeim tíma. Jorge Mendes er mjög klókur umboðsmaður og á sína velgengni skilið," sagði Joan Laporta í útvarpsviðtali við Radio Marca.

Joan Laporta sagðist ennfremur hafa ákveðið að velja Pep Guardiola frekar en José Mourinho.

„Mendes hringdi í mig og spurði hvort ég hefði áhuga á því að ráða Mourinho en ég sagði að ég væri búinn að ákveða að fá Pep Guardiola í starfið. Mourinho er mikill fagmaður en við vorum með Guardiola sem var tilbúinn að taka næsta skref upp í aðalliðið. Ég var alltaf viss um þá ákvörðun mína og þetta er ein besta fótboltaákvörðun sem ég hef tekið," sagði Joan Laporta.

Barcelona vann fjórtán af nítján titlum í boði undir stjórn Pep Guardiola frá 2008 til 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×