Fótbolti

Engin leikmannauppreisn hjá Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Florentino Perez, forseti Real Madrid, hélt sérstakan blaðamannafund í dag til að hafna þeim staðhæfingum að ósætti sé á meðal leikmanna félagisins með stjórann Jose Mourinho.

Spænska dagblaðið Marca fullyrti í dag að nokkrir leikmenn, með þá Iker Casillas og Sergio Ramos fremsta í flokki, hefðu sett félaginu afarkost. Annað hvort færu þeir að tímabilinu loknu eða Mourinho.

„Þetta er algjörlega rangt," sagði Perez. „Ég legg það ekki í vana minn að neita fréttaflutningi sérstaklega en þetta var of mikilvægt."

Perez sagði að frétt Marca hefði þann eina tilgang að koma félaginu úr jafnvægi. „Ég skil að sumir vilja koma stjóranum eða forsetanum frá völdum. En það sem var birt var einfaldlega lygi."

„Við sem sitjum í stjórn félagsins eru þeir einu sem ákveðum framtíð félagsins."

Real Madrid er nú fimmtán stigum á eftir Barcelona í spænsku úrvalsdeildinni og sagði Mourinho nýlega að liðið ætti engan möguleika á titlinum þetta tímabilið.

Liðið er hins vegar komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem það mætir Manchester United.

Spænskir fjölmiðlar hafa verið duglegir að greina frá meintu ósætti sumra leikmanna Real Madrid og Mourinho.

Mourinho gekk þó svo langt að setja Casillas á bekkinn fyrr á tímabilinu en hann verður reyndar frá keppni næstu vikurnar eftir að hafa puttabrotnað í leik með Real Madrid í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×