Viðskipti erlent

Krugman segir óhætt fyrir Obama að slá billjón dollara mynt

Hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugmann er kominn á þá skoðun að Barack Obama Bandaríkjaforseti geti nýtt sér smugu í bandarísku stjórnarskránni og látið slá fyrir sig billjón dollara eða 1.000 milljarða dollara mynt úr platínu.

Það hefur verið stigvaxandi umræða meðal fræðimanna í Bandaríkjunum um þessa smugu sem Obama gæti nýtt sér ef Repúblikanar reyna að taka fyrirsjáanlega hækkun á 16.000 milljarða dollara skuldaþaki Bandaríkjanna eftir tæpa tvo mánuði í gíslingu eins og gerðist 2011. Þá var billjón dollara myntin fyrst kynnt til sögunnar.

Bandaríska stjórnarskráin kveður á um að forseti landsins geti ekki látið prenta seðla á eigin vegum né slegið myntir í gulli, silfri eða kopar.

Það var lagaprófessorinn Jack Balkin við Yale háskólann sem fann áður nær óþekkta smugu í stjórnarskránni en hún fellst í viðbótarákvæði um að forsetinn geti látið slá myntir í platínu. Sennilega var ákvæðið hugsað til sláttar á heiðurspeningum.

Obama gæti látið slá þessa mynt og sett hana síðan á inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabankanum. Þar með væri skuldaþakið sem vandamál fyrir hann úr sögunni.

Paul Krugman segir að þessi lausn fyrir Obama muni ekki hafa neikvæð áhrif á bandaríska hagkerfið né hækka vexti á bandarískum skuldabréfum.

Repúblikanar taka þennan möguleika Obama alvarlega og vinna þingmenn þeirra í fulltrúadeildinni nú að frumvarpi sem myndi banna forsetanum að fara þessa leið til að leysa vandann við skuldaþakið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×