„Ég skil mjög vel gagnrýni og aðfinnslur Fangavarðafélagsins og fangelsisyfirvalda," segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vegna þeirrar umræðu sem skapast hefur eftir að ofbeldismaðurinn Matthías Máni Erlingsson strauk af Litla-Hrauni í fyrradag.
„Ég mun vilja fara yfir þetta með fangelsisyfirvöldum og fulltrúa Fangavarðafélagsins og hlusta á þeirra sjónarmið," segir Ögmundur sem kveður mikinn niðurskurð hafa verið til fangelsismála á undanförnum árum. Augljóst sé að á sjái þegar framlögin séu skert um 20 til 25 prósent.
„Hins vegar erum við núna að ráðast í umtalsverðar úrbætur. Í fyrsta lagi hefur verið sett viðbótarfjármagn til að bæta aðstöðuna í fangelsum landsins – þótt enn sé það af skornum skammti – og síðan erum við að ráðast í smíði nýs fangelsis á Hólmsheiði, sem mun gjörbreyta stöðunni," segir Ögmundur. Hann boðar einnig að ýmsar breytingar á lögum fækki þeim sem afpláni refsingu í fangelsi.
Það muni draga úr álaginu á fangelsiskerfið.
Matthías Máni afplánar dóm fyrir tilraun til manndráps. Hann er 171 sentimetri á hæð. Ábendingar hafa borist um að til hans hafi sést víða á suðvesturhorninu eftir strokið.- sh, gar