Nýr hjóla- og göngustígur milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur var formlega tekinn í notkun í síðustu viku. Jón Gnarr borgarstjóri, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri klipptu á borðann en stigu eftir það upp á fáka sína og vígðu stíginn með fríðu föruneyti.
Með lagningu þessa stofnstígs frá skógræktarsvæðinu við Hamrahlíð að gönguleið við verslun Bauhaus eru stígakerfi sveitarfélaganna tengd saman.
Nýi stígurinn er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og Vegagerðarinnar og er nú hluti af stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Kostnaðurinn við verkið var um 60 milljónir sem deilist á aðstandendur þess.
Verktakafélagið Glaumur sá um framkvæmdina en verkið fól meðal annars í sér gerð göngubrúar og um fimm þúsund fermetra malbikslögn. Þá var gengið frá ræsum og 38 ljósastólpar settir upp.
Stígurinn liggur í gegnum skógræktina og var rutt fyrir honum í fullu samráði við Skógræktarfélagið.
Meðal annars voru þau tré sem felld voru skilin eftir til að brotna niður á náttúrulegan hátt og gróðurþekja úr stígstæðinu var endurnýtt á fláa við stíginn.
Í vor verður gengið frá yfirborðsmerkingum þar sem skilið verður á milli gangandi og hjólandi vegfarenda.
- þj
