Skoðun

Virðingarvert framtak Kiwanis

Ögmundur Jónasson skrifar
Á miðnætti í lok þjóðhátíðardagsins sló ég fyrsta höggið í maraþon-golfleik sem Kiwanishreyfingin efnir til hringinn um landið til að afla fjár til góðra málefna.

Ég mætti til leiks – ekki sem sérstaklega glæsilegur fulltrúi golfíþróttarinnar – enda tókst höggið ekki vel – heldur sem fulltrúi samfélagsins. Átakið þarf einmitt á velvelja okkar allra að halda ef það á að skila árangri í fjársöfnuninni.

Ekki er það svo að ég vilji halda út á þá braut að fjármagna velferðarkerfi okkar með söfnunum, fjarri því. Hins vegar hafa safnanir tvíþætt gildi.

Í fyrsta lagi þá getur viðbótarfjármagn sem safnað er í samfélaginu skipt sköpum fyrir þá starfsemi sem nýtur góðs af, hvort takist að kaupa tiltekið tæki sem ella hefði ekki verið keypt eða aðstaða bætt sem ella hefði ekki orðið. Í öðru lagi er samfélagslegt átak til góðra verka ætíð félagslega styrkjandi. Ég fékk rækilega að kynnast því á sínum tíma þegar ég gegndi stöðu heilbrigðisráðherra og ferðaðist um landið, hve víða velferðarstofnanir eiga trausta bakhjarla í héraði sem stóðu vaktina fyrir þær öllum stundum. Þessum samfélagslega stuðningi og ræktarsemi á að sýna virðingu. Hann treystir innviði samfélagsins.

Kiwanismenn ætla sér með þessu söfnunarátaki að styrkja annars vegar alþjóðlegt átak Kiwanis International og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna til að stöðva stífkrampa. Stífkrampi er óþekktur á Vesturlöndum en landlægur í 34 fátækustu ríkjum heims. Hins vegar á að styrkja viðurkennd sambýli í bæjarfélögum hér þar sem Kiwanisklúbbar starfa en margar óskir um aðstoð við slík sambýli hafa borist Kiwanishreyfingunni.

Ég leyfi mér að hvetja alla til að sýna þessu frábæra framtaki athygli og velvilja. Tilgangurinn er góður. Og bara góður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×