Tveir ungir björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum komu lambi til bjargar síðdegis í gær. Lambið var í sjálfheldu í Kaplagjótu í Herjólfsdal.
Björgunarsveit fór á vettvang og þeir Bjartur Týr Ólafsson og Ármann Ægisson sigu niður klettana.
„Þetta var um 120 metra sig niður í fjöru," segir Bjartur Týr. „Við sáum lambið fyrst ekki og vorum að fara að síga alveg niður þegar ég heyrði í því inni í einum skútanum." Þegar niður var komið fór lambið strax á beit og bar sig vel. Að sögn Bjarts var því komið saman við móður sína og endaði því hildarleikurinn vel. - þj
Sigu með lamb úr Kaplagjótu
