Huga þarf að færum leiðum Óli Kristján Ármannsson skrifar 6. febrúar 2012 06:00 Skuldavandi heimila á að stórum hluta rót sína í því furðulega kerfi sem landsmenn hafa hér sætt sig við að verðtryggja íbúðarlán. Eiginlega er alveg sama hvaða óáran gengur yfir í heiminum eða hér heima, skuldir almennings hækka. Því til viðbótar er í raun magnað að hér sé hægt að keyra í gegn hækkanir á neyslusköttum sem vitað er að komi til með að skila sér í verðbólguvísitölu og þar með aukinni greiðslubyrði lána. Kerfið bítur í skottið á sér og almenningi blæðir. Það er ekki að ástæðulausu sem Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, kallar eftir ábyrgri efnahagsstjórn í viðtali í Fréttablaðinu fyrir helgi, enda hlýtur slagurinn við verðbólgunni að vera einhver sá mikilvægasti til þess að bæta kjör fólks í landinu. Neytendasamtökin vilja efnahagsumhverfi þar sem verðtryggingar gerist ekki þörf. Hann segir reynslu liðinna áratuga þó ef til vill ekki til þess fallna að ýta undir bjartsýni í þeim efnum. „Maður hlýtur hins vegar að gera kröfu til þess að þeir sem stýra þjóðarskútunni líti yfir farinn veg og læri af því sem farið hefur aflaga," segir Jóhannes. Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor reifaði í grein í efnahagsritinu Vísbendingu í vikunni leiðir til þess að beisla verðbólguna með því að draga úr gjaldeyrissveiflum, en þær eru helsta ástæða og drifkraftur verðbólgunnar. Kerfi með föstu gengi segir hann að myndi framkalla stöðugra verðlag og gera afnám verðtryggingar mögulega. Tvær leiðir eru færar. Annaðhvort er það fastgengi með þátttöku í evrópska myntsamstarfinu eða fljótandi gengi með svokölluðum Tobin-skatti á gjaldeyrisviðskipti. Slíkur skattur myndi draga úr gengissveiflum og gera út af við spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði. Í dæmi Gylfa er skatturinn hins vegar að minnsta kosti tífaldur á við það sem rætt er um í öðrum löndum. Með Tobin-skattinum kemur bara á enn einum stað til viðbótar fram kostnaðurinn við að halda hér við krónunni, svona til viðbótar við umtalsvert hærri vexti en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Hætt er við því að þótt slíkur skattur myndi ekki endilega trufla fjármögnun stórframkvæmda á borð við virkjanir þá hækkar þröskuldurinn sem smærri fjárfestar kunna að setja fyrir sig, auk þess sem þarna eru vitanlega komnar álögur á þá sem sækja þurfa sér gjaldeyri til ferðalaga, netverslunar og fleiri hluta. Og ekki þarf að hugsa sig lengi um til þess að geta sér til um hvert aukinn kostnaður fyrirtækja af gjaldeyrisviðskipum fer, nefnilega út í vöruverðið. Niðurstaðan er því sú sama, á endanum borgar almenningur brúsann. Væntanlega verður þó heildarútkoman skárri fyrir allan almenning með Tobin-sköttum og tillagan fagnaðarefni í viðleitni til að koma hér á ábyrgari efnahagsstjórn, líkt og kallað er eftir. Í framhaldinu má svo vega og meta samanburðinn við evrusamstarfið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Köllum Skjöld Íslands réttu nafni: Rasískt götugengi Ian McDonald Skoðun Hverjir eru komnir með nóg? Nichole Leigh Mosty Skoðun Að leigja okkar eigin innviði Halldóra Mogensen Skoðun Evrópusambandsaðild - valdefling íslensks almennings Magnús Árni Skjöld Magnússon Skoðun Málþóf sem valdníðsla Einar G. Harðarson Skoðun Alltof mörg sveitarfélög á Íslandi! Gunnar Alexander Ólafsson Skoðun Þið voruð í partýinu líka! Gísli Sigurður Gunnlaugsson Skoðun Lýðheilsan að veði? Willum Þór Þórsson Skoðun Öryggi betur tryggt – fangelsismál færð til nútímans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson Skoðun
Skuldavandi heimila á að stórum hluta rót sína í því furðulega kerfi sem landsmenn hafa hér sætt sig við að verðtryggja íbúðarlán. Eiginlega er alveg sama hvaða óáran gengur yfir í heiminum eða hér heima, skuldir almennings hækka. Því til viðbótar er í raun magnað að hér sé hægt að keyra í gegn hækkanir á neyslusköttum sem vitað er að komi til með að skila sér í verðbólguvísitölu og þar með aukinni greiðslubyrði lána. Kerfið bítur í skottið á sér og almenningi blæðir. Það er ekki að ástæðulausu sem Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, kallar eftir ábyrgri efnahagsstjórn í viðtali í Fréttablaðinu fyrir helgi, enda hlýtur slagurinn við verðbólgunni að vera einhver sá mikilvægasti til þess að bæta kjör fólks í landinu. Neytendasamtökin vilja efnahagsumhverfi þar sem verðtryggingar gerist ekki þörf. Hann segir reynslu liðinna áratuga þó ef til vill ekki til þess fallna að ýta undir bjartsýni í þeim efnum. „Maður hlýtur hins vegar að gera kröfu til þess að þeir sem stýra þjóðarskútunni líti yfir farinn veg og læri af því sem farið hefur aflaga," segir Jóhannes. Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor reifaði í grein í efnahagsritinu Vísbendingu í vikunni leiðir til þess að beisla verðbólguna með því að draga úr gjaldeyrissveiflum, en þær eru helsta ástæða og drifkraftur verðbólgunnar. Kerfi með föstu gengi segir hann að myndi framkalla stöðugra verðlag og gera afnám verðtryggingar mögulega. Tvær leiðir eru færar. Annaðhvort er það fastgengi með þátttöku í evrópska myntsamstarfinu eða fljótandi gengi með svokölluðum Tobin-skatti á gjaldeyrisviðskipti. Slíkur skattur myndi draga úr gengissveiflum og gera út af við spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði. Í dæmi Gylfa er skatturinn hins vegar að minnsta kosti tífaldur á við það sem rætt er um í öðrum löndum. Með Tobin-skattinum kemur bara á enn einum stað til viðbótar fram kostnaðurinn við að halda hér við krónunni, svona til viðbótar við umtalsvert hærri vexti en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Hætt er við því að þótt slíkur skattur myndi ekki endilega trufla fjármögnun stórframkvæmda á borð við virkjanir þá hækkar þröskuldurinn sem smærri fjárfestar kunna að setja fyrir sig, auk þess sem þarna eru vitanlega komnar álögur á þá sem sækja þurfa sér gjaldeyri til ferðalaga, netverslunar og fleiri hluta. Og ekki þarf að hugsa sig lengi um til þess að geta sér til um hvert aukinn kostnaður fyrirtækja af gjaldeyrisviðskipum fer, nefnilega út í vöruverðið. Niðurstaðan er því sú sama, á endanum borgar almenningur brúsann. Væntanlega verður þó heildarútkoman skárri fyrir allan almenning með Tobin-sköttum og tillagan fagnaðarefni í viðleitni til að koma hér á ábyrgari efnahagsstjórn, líkt og kallað er eftir. Í framhaldinu má svo vega og meta samanburðinn við evrusamstarfið.