Enski boltinn

Evening Standard: Falcao fer til Chelsea og Sturridge til Liverpool

Arnar Björnsson skrifar
Radamel Falcao
Radamel Falcao Nordicphotos/Getty
Kapphlaupið um feitustu bitana á fótboltamarkaðnum verður spennandi næstu daga. Evening Standard fullyrðir að Roman Abramovic eigandi Chelsea kaupi hinn sjóðheita Kolumbíumann, Radamel Falcao.

Chelsea þarf að borga Atletico Madrid 48 milljónir punda fyrir Falcao eða sem nemur um átta milljörðum íslenskra króna. Félagið ætlar að bjóða honum 175 þúsund pund, um 36 milljónir króna, í vikulaun. Hann verður því á sömu launum og Fernando Torres hjá Lundúnaliðinu.

Blaðið fullyrðir að menn frá Chelsea hafi þegar farið til Madríd til þess að semja um kaupin. Lundúnaliðið ætlar að kaupa tvo til þrjá leikmenn að auki.

Eftir leiki helgarinnar á Spáni verður hálfsmánaðarfrí og þann tíma ætlar Falcao að nota til að skoða sig um hjá Chelsea. Lundúnaliðið ákvað í sumar að treysta Fernando Torres fyrir markaskoruninni og hætti við að kaupa Falcao. Atletico Madríd vill alls ekki selja hann til erkifjendanna í Real Madríd og því er Chelsea miklu betri kostur.

Sjálfur er Falcao sagður vilja klára leiktíðina með Atletico.

Talið er að Chelsea fái tólf milljónir punda, um tvo milljarða íslenskra króna, fyrir Daniel Sturridge sem reiknað er með að gangi til liðs við Liverpool. Chelsea gefur þó ekki grænt ljós á vistaskiptin fyrr en félagið kaupir framherja í staðinn.

Sturridge kostaði 6,5 milljónir punda þegar hann kom frá Manchester City árið 2009. Hann er búinn að skora 24 mörk í 96 leikjum en í tæpum helmingi leikjanna hefur hann komið af varamannabekknum. Í fæstum leikjanna hefur hann spilað í sinni uppáhaldsstöðu sem framherji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×