Fótbolti

Mourinho ræddi ekkert við Casillas

Iker Casillas var ekkert sérstaklega kátur á varamannabekk Real Madrid gegn Malaga.
Iker Casillas var ekkert sérstaklega kátur á varamannabekk Real Madrid gegn Malaga. Nordic Photos / Getty Images
Það vakti athygli um helgina þegar José Mourinho þjálfari Spánarmeistaraliðs Real Madrid valdi ekki markvörðinn Iker Casillas í byrjunarliðið gegn Malaga. Antonio Adan var valinn í stað hins 31 árs gamla Casilla sem jafnframt er fyrirliði Real Madrid. Casillas segir að Mourinho hafi ekkert rætt við sig um liðsvalið.

„Ég er ekki vanur því að vera á varamannabekknum, en það sem skiptir mestu máli er að ég er hluti af liði. Ég verð að leggja mig fram og reyna að komast í byrjunarliðið á ný," sagði Casillas eftir leikinn sem Real Madrid tapaði 3-2.

„Það er þjálfarinn sem velur liðið, og ég fann á æfingum fyrir leikinn að þetta gæti endað svona. Mourinho ræddi þetta ekkert við mig. Það hefur ekki þurft að útskýra það fyrir mér afhverju hann velur mig í byrjunarliðið og hann þarf því ekkert að útskýra það fyrir mér ef ég er ekki valinn. Mér líður vel en það er þjálfarinn sem ræður ferðinni. Það er heilbrigð samkeppni um byrjunarliðisstöðuna og þannig á að það vera," sagði Casillas í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

Mourinho sagði eftir leikinn að hann hefði ekki tekið ranga ákvörðun með því að setja Casillas á bekkinn. „Ég er með hreina samvisku, ég geri það sem er best fyrir liðið í hverjum leik," sagði Mourinho en hann þykir ekki vera í öruggasta starfinu á Spáni þessa dagana.

Real Madrid er í þriðja sæti deildarinnar, 16 stigum á eftir Barcelona. Atlético Madrid er í öðru sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×