Sport

Guðmundur Björgvinsson hestaíþróttmaður ársins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Björgvinsson og Hrímnir frá Ósi.
Guðmundur Björgvinsson og Hrímnir frá Ósi. Mynd/Eiðfaxi.is
Landssamband hestamannafélaga hefur útnefnt Guðmund Björgvinsson hestaíþróttamann ársins 2012. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sambandinu.

Guðmundur á að baki breiðan árangur á árinu sem er að líða og var tilnefndur til verðlauna í þremur flokkum á Uppskeruhátíð hestamanna í nóvember. Hann virðist vera jafnvígur í öllum greinum hestamennskunnar, hvort sem það er gæðingakeppni, íþróttakeppni eða sýningar af ýmsum toga.

Hann sýndi 62 hross á árinu og mörg þeirra til æðstu viðurkenninga í sínum flokki, eins og hryssuna Furu frá Hellu í flokki 5v hryssna á Landsmótinu í Reykjavík og Sjóð frá Kirkjubæ í flokki 5v stóðhesta.

Guðmundur sýndi styrk sinn í gæðingakeppni Landsmóts, þar sem hann kom mörgum gæðingum inná mót í gegnum úrtökur hestamannafélaganna og kom nokkrum þeirra alla leið eða í úrslitin og kom inn á mótið með hæstu einkunn B-flokks gæðings, 8,99 á stóðhestinum Hrímni frá Ósi.

Guðmundur er fyrirmyndarknapi, prúður innan vallar sem utan, íþróttamaður af lífi og sál og frábær fyrirmynd ungra knapa. Hann er mikill fagmaður, kemur með vel undirbúna hesta, fer afar vel á hesti, er sanngjarn reiðmaður og meðal fremstu reiðmanna heims á íslenskum hestum. Hann átti frábært ár í ár og varð Íslandsmeistari í fjórgangi á Hrímni frá Ósi og var einnig í verðlaunasætum á Íslandsmóti í fimmgangi, 150m og 250m skeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×