„Þetta árið skartaði Laxáin sínu fegursta þegar veiðimenn renndu í hlað við veiðihúsin daginn fyrir opnun. Þá var hiti í lofti og ánægjulegir endurfundir með karlaknúsi venju samkvæmt. Forboðinn tóbaksilmur úr vindlum og pípustertum fylltu vitinn með sjússasmjattinu, baukafrussi og skvaldrinu. Framundan var ævintýri... það var borðleggjandi. [...] Spennan magnast og magnast fram eftir kvöldi en eftir dráttinn verður spennufall og menn tínast snemma í kojur til að takast fullfrískir á við morgundaginn.
Árnefndarmaður dró út Geldingeyna á sinni fyrstu morgunvakt og var fljótur að strunsa yfir í Brunnhellishróið sem er rómaður vorveiðistaður. Þar blasti við honum óvenju tær áin og sást vel til botns þrátt fyrir straumkvikur hér og þar. Og viti menn. Við hverja hraunnibbu lá stórurriði og eru nibburnar samt óteljandi. Öðru hverju lyfti urriði sér til að geispa en annars lágu þeir hreyfingarlausir niður við botn. En þá var það spurningin, skyldu þeir taka og hvernig koma þeir undan vetri? Það tók ekki margar mínútur að finna út úr því. Veiðisumarið byrjaði með látum.“
Svona hefst stórskemmtileg og fróðleg skýrsla árnefndar Laxár í Mývatnssveit og Laxárdal, sem birt er í ársskýrslu SVFR þetta árið. Ekki verður framhjá því komist að birta allt það upplýsingaflóð sem í skýrslu árnefndar er að finna, og margur veiðimaðurinn hefur kannski ekki kynnt sér.
Í skýrslunni, sem öll árnefndin er skrifuð fyrir, kemur fram að heildarveiðin 2012 var 4.439 urriðar samkvæmt veiðibókum. Er það nálægt meðalveiði í Laxánni undanfarin 25 ár. Ef 2012 er borið saman við árið á undan varð 10% aukning á heildarveiðinni milli ára. Þessu var þó misskipt milli svæða. Í Laxárdalnum var heildarveiðin 758 urriðar sem er 8% samdráttur en 3.681 urriðar í Mývatnssveitinni sem er 14% aukning. Meðalveiði á nýtta dagstöng var 3,2 fiskar í Mývatnssveitinni en í Laxárdalnum var veiðin hins vegar 1,1 fiskur á dagstöngina. Sú þróun sem sést hefur á undanförnum árum að veiða og sleppa heldur áfram og þetta árið var 63% skráðra fiska sleppt, eða 2.803 alls.
Í Laxárdal er algengasta þyngd veiddra urriða þrjú til fjögur pund en í Mývatnssveitinni er hún tvö til þrjú pund. Holdafar urriðans var yfirleitt ágætt þetta árið og ekki var mikill munur á meðal holdafari fiskana eftir svæðum og er það talsverð breyting frá árunum á undan þar sem urriðinn í Laxárdalnum var merkjanlega mun holdrýrari en í Mývatnssveitinni. Hins vegar var áberandi meiri breytileiki í holdafarinu í Laxárdalnum miðað við Mývatnssveitina.
Engin stærðar- eða þyngdarmet voru slegin þetta árið. Eins og fyrri ár veiðist mest af stórfiskum á Geirastöðum en einnig veiddust tveir 73 sentimetra fiskar í Vörðuflóanum með viku millibili og var þeim báðum sleppt. Þeir voru ekki þyngdarmældir. Annars er Skurðurinn líkt og vanalega með flesta stórfiskana.
Staðfest hefur verið að Vilhjálmur A. Þórðarson veiddi þyngsta skráða fiskinn sem var rúmlega níu pund og 70 sentimetrar. „Hann tók í Miðkvíslinni rauk niður stíflubrotin og var landað neðst í Brunnhellishróinu. Þetta var ákaflega eftirminnileg viðureign að sögn veiðimannsins,“ segir í skýrslu árnefndar.
Í Laxárdalnum var lengsti fiskurinn veiddur við Hrafnsstaðaey, 67 sentimetrar en þyngstu fiskarnir voru sex pund og veiddir í Barnavík og Nónvík.
Vinsælustu flugurnar sumarið 2012
Straumflugur:
Black Ghost
Nobbler (ýmsir litir)
Rektor
Þingeyingur
Vot- og þurrflugur:
Klinkhammer
Maurinn
Galdralöpp
Black Gnat
Black Zulu
Púpur og nymfur:
Pheasant Tail
Peacock
Vínil púpur
Olive Green
svavar@frettabladid.is
Forboðinn ilmur, sjússasmjatt og skvaldur
