Veiði

Aldrei verið skrifuð dýrari bók um lax

Trausti Hafliðason skrifar
Bókin er myndskreytt með teikningum eftir hinn sænsk­ættaða Harvey D. Sandström sem kom til Íslands með Hubert þegar þeir unnu að gerð bókarinnar. Þessi teikning er af veiðimanni við Berghyl í Norðurá.
Bókin er myndskreytt með teikningum eftir hinn sænsk­ættaða Harvey D. Sandström sem kom til Íslands með Hubert þegar þeir unnu að gerð bókarinnar. Þessi teikning er af veiðimanni við Berghyl í Norðurá. Mynd / Vilhelm
Bókin Salmon – Salmon: With a Chapter on Iceland er nú til sölu á eBay fyrir 400 þúsund krónur. Bókin var gefin út í 100 eintökum árið 1979. Kristján Eldjárn fekk fyrsta eintakið og Karl Bretaprins annað. Bókin er prentuð á 100 prósenta bómullarpappír, sem er afar sjaldgæft.

„Ég held mér sé óhætt að segja að það hafi aldrei verið skrifuð dýrari bók um lax og hún stendur vel undir verðmiðanum. Þetta er afskaplega vönduð bók," segir Haraldur Stefánsson, fyrrverandi slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli.

Haraldur er góðvinur Bandaríkjamannsins Joseph P. Hubert, sem árið 1979 gaf bókina út, en eins og fyrr sagði er eitt eintak hennar nú til sölu á uppboðsvefnum eBay á 3.250 dollara eða um 400 þúsund krónur.

Í bókasafni Hvíta hússins og bandaríska þingsins


Hubert veiddi mikið á Íslandi og varð hugfanginn af laxveiðiám landsins en hann veiddi oftar en ekki með Haraldi. Hubert býr nú í Duluth í Minnesota og segir Haraldur að hann sé hættur að veiða enda kominn á níræðisaldur.

Eintökin 100 eru öll tölusett. Fyrsta eintakið var afhent Kristjáni Eldjárn, forseta Íslands, en það eintak er nú geymt í lokaðri geymslu í Þjóðarbókhlöðunni. Bókin er ekki til útláns en fólk getur samt að sjálfsögðu fengið að skoða hana á bókasafninu.

Karl Bretaprins fékk bók númer tvö og Mamie Eisenhower, ekkja Dwight Eisen­hower, fékk bók númer þrjú sem nú er geymd í bókasafni Hvíta hússins. Haraldur fékk síðan sjálfur bók númer fjögur. Fimmta eintakið er á bókasafni Atlantic Salmon Federation og það sjötta á bókasafni bandaríska þingsins. Eintakið sem er til sölu á Ebay er númer 69.

Fjallað um fjórar íslenskar laxveiðiár
Í bókinni eru veiðikort af Norðurá, Grímsá, Laxá í Dölum og Miðfjarðará.Mynd / Vilhelm
Mikið hefur verið lagt í útgáfu bókarinnar. Hún er prentuð á pappír sem er unninn úr 100 prósenta bómull. Í henni eru veiðikort, vegakort og blátt innsigli yfir skógarhanafjöður. Þá er bókin myndskreytt með tuttugu fallegum teikningum eftir hinn sænsk­ættaða Harvey D. Sandström. Í bókinni eru enn fremur tíu ljósmyndir af laxaflugum og eru þær prentaðar á ljósmyndapappír.

Fyrstu fjórir kaflar bókarinnar fjalla um laxveiði almennt, til dæmis veiðitækni og búnað. Síðustu fimm kaflarnir fjalla síðan um laxveiði á Íslandi og er sérstaklega fjallað um fjórar ár; Laxá í Dölum, Grímsá, Norðurá og Miðfjarðará.

Orri Vigfússon, formaður Verndar­sjóðs villtra laxa (NASF), kannast ágætlega við Hubert en hefur ekki heyrt í honum í mörg ár.

„Ég hef séð þessa bók og hún er mjög glæsileg," segir Orri. „Ég get vottað það að Hubert er mjög fær veiðimaður þó að hann sé nú svolítill furðufugl eins og reyndar margir veiðimenn. Ég veiddi meðal annars með honum í Hítará og hann nálgaðist veiðina þannig að hann reyndi ávallt að koma sér í stöðu sem næst fiskinum til að geta kastað stutt."

Prentuð á 100 prósent bómullarpappír

Bókin er prentuð í Bandaríkjunum á 100 prósenta bómullarpappír. Kristín Michelsen, skrifstofustjóri hjá Hvítlist, segir algengt að bækur séu prentaðar á blandaðan pappír þar sem bómullarhlutfallið er í kringum 10 til 15 prósent.

Hún segist ekki vita til þess að bækur hafi verið prentaðar hérlendis á 100 prósenta bómull. „Þessi pappír er dýr og almennt ekki notaður í bækur nema þá mjög fínar bækur. Bómullin gerir pappírinn mjög mjúkan og það er til dæmis mjög gott að þrykkja á þennan pappír."

trausti@frettabladid.is






×