Fótbolti

Skoraði óheiðarlegt mark | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Afar sérstakt atvik kom upp í leik Nordsjælland og Shakhtar Donetsk í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Leiknum lauk með 5-2 sigri gestanna frá Úkraínu en leiksins verður fyrst og fremst minnst fyrir fyrsta mark Shakhtar í kvöld.

Heimamenn í Nordsjælland komust yfir á 24. mínútu með marki Morten Nordstrand en tveimur mínútum síðar jafnaði Shakhtar Donetsk með umdeildu marki, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Nordsjælland hafði verið með boltann þegar leikurinn var stöðvaður vegna meiðsla. Þegar hann fór aftur af stað sparkaði Willian, leikmaður Shakhtar, boltanum aftur til Jesper Hansen, markvarðar Nordsjælland, til að koma honum aftur til Dananna.

Þá tók Luiz Adriano, sókanarmaður Shakthar, sig til og hljóp á eftir sendingunni - náði boltanum og skoraði fram hjá Hansen.

Dómari leiksins gat ekki annað en að dæma markið gott og gilt, þrátt fyrir kröftug mótmæli heimamanna.

Leikurinn hélt áfram eftir þetta en gestirnir frá Úkraínu sáu ekki ástæðu til þess að „gefa" Nordsjælland mark vegna þessa.

Heimamenn komust þó yfir á ný strax á 30. mínútu þegar að Kapser Lorentzen skoraði með föstu skoti, í slána og inn, eftir laglega sókn heimamanna. Það dugði þó ekki til á endanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×