Viðskipti erlent

Windows 8 selst betur en Windows 7

Rúmur mánuður er síðan nýjasta stýrikerfi Microsoft, Windows 8, fór í almenna sölu en nú þegar hefur þessi uppfærsla á mikilvægustu vöru tæknirisans slegið forvera sínum við.

Tami Reller, markaðsstjóri hjá Microsoft, tilkynnti í dag að hátt í 40 milljón eintök af Windows 8 hefðu selst hingað til. Á tækniráðstefnu Credit Suisse í Arizona í dag sagði Reller að Windows 8 myndi seljast betur en Windows 7.

Það tók Microsoft rúmlega tvo mánuði að selja 60 milljón eintök af Windows 7 en augljóst er að nýjasta uppfærslan mun gera betur en svo.

Um mikinn sigur er að ræða fyrir Microsoft en fyrirtækið hefur átt í vök að verjast síðustu misseri. Fyrirtækinu hefur ekki tekist að halda í við vinsældir helstu samkeppnisaðila, einna helst Apple sem hefur verið í stórsókn síðustu ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×