Viðskipti erlent

Helmingslíkur á að hægt verði að bjarga SAS

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fundað er um það í kvöld hvort hægt verði að bjarga SAS flugfélaginu frá gjaldþroti. Fram kemur á viðskiptavefnum epn.dk að von sé á niðurstöðu um klukkan ellefu í kvöld að íslenskum tíma.

Forstjóri félagsins hefur sagt að það séu um helmingslíkur á því að hægt verði að bjarga félaginu. Áður en niðurstaða liggur fyrir þurfa stjórnendur SAS og starfsmenn að vera sammála um niðurskurðaraðgerðir. Þar er meðal annars um að ræða lækkun launa og skerðingu á lífeyrisréttindum.

Fyrr í nóvember hafði SAS tilkynnt umfangsmiklar sparnaðar- og hagræðingaráætlun. Með áætluninni átti að spara um 3 milljarða sænska króna eða um tæplega 60 milljarða króna. Áætlunin fólst meðal annars í því að reka 800 starfsmenn til að byrja með og lækka laun almennt um 15%. Til lengri tíma stóð til að fækka starfsmönnum SAS úr 15.000 og niður í 9.000.

Eins og staðan er í kvöld er óvíst að sú hagræðingaráætlun nægi. En stjórnendur SAS segjast ætla að senda tilkynningu þegar niðurstaða hefur fengist í viðræðunum sem standa yfir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×