Fótbolti

Mourinho: Ég veit ekki hvað ég geri eftir Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid.
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, hefur ekki ákveðið neitt um hvað hann gerir þegar hann hættir sem þjálfari spænska liðsins. Portúgalinn var síðasta vor fyrsti stjórinn til að vinna Ítölsku, ensku og spænsku deildina.

„Frá unga aldri vissi ég að til þess að vaxa sem þjálfari þá þyrfti ég að komast til annarra landa, ferðast og takast á við nýjar áskoranir," sagði Jose Mourinho við tímaritið Ronda Ibera.

„Þegar ég byrjaði að ferðast þá stefndi ég á England, Ítalíu og Spán en þegar ég klára hjá Real Madrid þá veit ég ekki hvað ég geri," sagði Mourinho.

Mourinho hefur verið orðaður við franska félagið Paris Saint-Germain og þá er alltaf verið að skrifa um að hann ætli að snúa aftur í enska boltann.

„Ég er alltaf í glímu við sjálfan mig og ég er alltaf að reyna að vera sá besti. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að þjálfa og þjálfari í dag getur ekki gert það sama og sá fyrir 10, 20 eða 30 árum. Þetta starf er í stöðugri þróun og skyldur þjálfarans snúast um miklu meira en að velja ellefu byrjunarliðsmenn, ákveða taktík eða skipta mönnum inn á," sagði Mourinho.

Mourinho talaði um að starfið hafi mikil áhrif á fjölskyldulífið. „Sonur minn getur ekki farið í háskóla án þess að aðrir viti hver hann er og konan mín þarf að biðja mig um að bíða í bílnum þegar hún fer inn í búð að versla. Þetta er fórnarkostnaður minn til þess að geta gert það sem ég elska að gera," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×