Fótbolti

Mancini: Við leikum til sigurs í Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini.
Roberto Mancini. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, ætlar að leika til sigurs á Santiago Bernabeu á morgun en það er óhætt að Meistaradeildin byrji með risaleik þegar Spánarmeistarar Real Madrid taka á móti Englandsmeisturum Manchester City á morgun.

„Við förum ekki til Madrid eða á nokkurn annan útivöll til að spila upp á jafntefli því við spilum alltaf til sigurs," sagði Roberto Mancini.

„Við vitum að þetta verður erfiður leikur því við erum að fara að mæta einu af besta liðinu í heimi," sagði Mancini og hann lofar knattspyrnuveislu á morgun.

„Ég held að þetta verði frábær fótboltaleikur og frábær stund fyrir alla í félaginu. Það er samt alltaf mjög erfitt að spila í Meistaradeildinni því þar mætir þú toppliði í hverjum leik," sagði Mancini.

„Það bætist síðan við það að þegar þú mætir Real eða Barca þá ertu að lenda á móti 100 ára hefð því þessi félög hafa unnið allt og hafa mikla sögu. Það gerir þetta enn erfiðara verkefni," sagði Mancini.

„Það má samt ekki líta framhjá því að við höfum leikmenn með reynslu úr Meistaradeildinni og þeir þekkja allir þetta andrúmsloft. Ég held líka að ef við náum jafnmörgum stigum og í fyrra þá komust við í 16 liða úrslitin," sagði Mancini.

Manchester City sat eftir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra og var ekki heppið þegar dregið var í riðla í ár enda í riðli með Real Madrid, Borussia Dortmund og Ajax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×