Fótbolti

Real Madrid vann spænska ofurbikarinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Madrídingar fagna í kvöld.
Madrídingar fagna í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Real Madrid vann í kvöld fyrsta titil tímabilsins á Spáni með 2-1 sigri á Barcelona í síðari viðureign liðanna um spænska ofurbikarinn í kvöld.

Fyrri leiknum lauk með 3-2 sigri Börsunga og því samanlögð úrslit jöfn, 4-4. Madrídingar skoruðu hins vegar fleiri mörk á útivelli og unnu því titilinn.

Gonzalo Higuain skoraði fyrra mark Real á elleftu mínútu eftir mistök hjá Javier Mascherano. Cristiano Ronaldo bætti síðara markinu við átta mínútum síðar eftir að hafa leikið illa á Gerard Pique.

Börsungar misstu svo Adriano af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik en Lionel Messi minnkaði engu að síðu muninn fyrir Barcelona með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu í lok fyrri hálfleiks.

Þar með varð Messi markahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi í viðureignum félagsins gegn Real Madrid en hann hefur nú skorað fimmtán mörk í El Clasico-leikjunum svokölluðu.

Alfredo Di Stefano skoraði átján El Clasico-mörk fyrir Real Madrid á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×