Veiði

Helgarviðtal: Sjö ára á hestbaki í veiðitúra

Guðmundur Atli með einn vænan.
Guðmundur Atli með einn vænan.
Guðmundur Atli Ásgeirsson er ferðamálafræðingur að mennt en forfallinn veiðimaður. Hann byrjaði að veiða ellefu ára gamall og starfar nú sem leiðsögumaður í öllum helstu veiðiám landsins. Guðmundur Atli er veiðimaður helgarinnar.

Hvenær byrjaðir þú að veiða á stöng og hvað varð þess valdandi að þú byrjaðir að veiða?

Ætli ég hafi ekki verið svona 7 ára þegar ég byrjaði að hlaupa yfir Keflavíkurveginn og stelast í lækinn í Setberginu, sem var fullur af flottum urriða enn neðar í læknum þar sem Veiðibúðin við Lækinn er voru oft svakalegir birtingar. Við strákanir í hverfinu vorum með alls konar æfingar til að hámarka veiðiárangur, jafnvel drógum á með netum til að veiða sem mest.

Fyrsta vatnið sem ég stundaði var Urriðavatn sem gat verið nokkuð gjöfult. En það var svakalegt ferðalag fyrir lítinn gutta á þessum árum. Svo við fengum þessa frábæru hugmynd að reyna að notast við hesta sem voru á túninu til að stytta ferðatímann. Það gekk misvel hjá okkur því hvorki vorum við með hnakka og beisli og enginn hafði farið á hestbak áður svo árangur var eftir því.

Á hvað veiddir þú og á hvað veiðir þú?

Ég byrjaði að veiða á maðk en mína fyrstu fluguveiðistöng fékk ég þegar ég í afmælisgjöf þegar ég var 11 ára gamall. Pabbi átti þessa ónotuðu fluguveiðistöng sem lá óhreyfð inn í geymslu, þennan grip varð ég að eignast því ég vildi vera alvöru veiðistrákur og taka næsta skrefið í veiðimennskunni og vera eins og fluguveiðikallarnir. Kastæfingar gengu vel á túninu og fékk maður stundum leiðsögn hvernig ætti að kasta frá mönnum sem áttu leið hjá, þeim fannst nokkuð merkilegt að sjá svona ungan dreng æfa sig kasta á flugu. Það gekk ekki vel að ráða við stöngina vatninu því það var víst steinsökkvandi lína á hjólinu, það tók einhvern tíma að fatta að það var hægt að vera með flotlínu.

Lax, silungur, urriði eða bleikja? Og eftirminnilegasti fiskurinn?

Það er skemmtilegt að veiða alla þessa fiska og hver hefur sinn sjarma. Ef ég þarf að velja þá set ég urriðan í fyrsta sæti. Því það toppar ekkert þurrfluguveiði í Laxárdal og eru Halldórsstaðir í miklu upp á haldi hjá mér, þar hefur maður lent í miklum ævintýrum. Ég hef veitt nokkra eftirminnilega, þeir sem sleppa hjá manni man maður vel eftir.

Veiða eða sleppa?

Það á við í sumum ám en er ekkert fanatískur á það eigi að sleppa öllu en finnst það góð regla að sleppa stórlaxinum. Það er partur af veiðieðlinu að koma með fisk heim en algjör óþarfi að drepa meira en maður þarf.

Ég sjálfur borða í mesta lagi 1-2 lax eða silung á ári svo ég vill sleppa sem mestu, nema einhver biður mig um að koma með fisk í soðið. Finnst það algjör skylda að sleppa stór urriðanum í Þingvallavatni. Skil ekki menn sem geta drepið svona fallegar skepnur.

Uppáhalds flugurnar?

Þær eru margar, það eru tvær sem eru í miklu upp á haldi hjá mér núna. Royal Wolff þurrfluga, Palmist rat laxafluga og Rainbow Ghost streamer.

Hvaða stöng notar þú?

Ég bíð spenntur eftir nýju silunga stönginni frá Sage (Circa) sem ég er búinn að panta mér. Alveg klárlega skemmtilegasta flugustöngin sem eg hef prufað í silung. En annars veiði ég bara á Sage, þó ég eigi einhverjar bensínstöðvara flugustengur frá Skandinavíu inn í geymslu.

Uppáhaldsveiðistaðir?

Laxárdalurinn og Laxá við Mývatn eru í miklu uppáhaldi hjá mér, hef ekki enn fundið skemmtilegri stað til að veiða á þurrflugur, reyni að fara þangað á hverju ári. Þingvallavatn er líka mjög skemmtilegt hef lent í mörgum ævintýrum þar, bleikju og urriða.

Hvað finnst þér um þróun veiðileyfa á Íslandi?

Það er alltaf sama umræðan á hverju ári hvort veiðileyfin eru of dýr eða ekki. Auðvitað væri betra ef þau kostuðu minna. Ef mönnum finnst þau of dýr þá eiga menn bara að fara eitthvað annað að veiða, fullt af stöðum sem kosta lítið sem ekkert. Ekkert sérlega flókið í mínum huga. Þetta er að vísu fyrsta árið mitt sem ég finn fyrir að útlendingarnir séu farnir að ræða að þeim finnist þetta of dýrt eða ekki þess virði að borga hundruðir þúsunda fyrir daginn í laxveiði. Ekki hjálpar veiðin í ár til að réttlæta þetta verð. Verður spennandi vita hvað veiðileyfin kosta á næsta ári.

Áttu þér fastan hóp veiðifélaga?

Er í Fluguveiðifélaginu Hugrenningu (FH), þar sem við erum allir grjótharðir FH-ingar svo það eru engnir Haukamenn leyfðir í þessum félagsskap, því það mundi enda illa. En sumir meðlimirnir hafa meiri áhuga á kökugerð og halda saumaklúbba yfir vetrartímann en að fara að veiða á sumrin.






×