Fótbolti

Real Madrid fór illa með Los Angeles Galaxy

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham í leiknum í nótt.
David Beckham í leiknum í nótt. Mynd/AP
Real Madrid byrjaði undirbúningstímabilið sitt með látum þegar spænsku meistararnir unnu 5-1 sigur á Los Angeles Galaxy í æfingaleik í Bandaríkjunum í nótt.

Stjörnurnar Cristiano Ronaldo, Karim Benzema og Mesut Ozil byrjuðu allir á bekknum en Real Madrid var samt sem áður komið í 3-1 í hálfleik.

Gonzalo Higuain skoraði fyrsta markið eftir aðeins 85 sekúndur eftir stoðsendingu frá Angel Di Maria og Di Maria bætti síðan við öðru marki níu mínútum síðar.

Jose Maria Callejon skoraði þriðja markið á 36. mínútu og þeir Alvaro Morata og Alex Fernandez bættu við mörkum í seinni hálfleiknum. Ronaldo fékk tvö góð færi í lokin en tókst ekki að skora.

David Junior Lopes minnkaði muninn fyrir Galaxy í fyrri hálfleik í kjölfarið á aukaspyrnu frá David Beckham.

Real Madrid mun spila fjóra leiki í Bandaríkjaferð sinni en spænska deildin hefst síðan 18. ágúst næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×