Veiði

Fyrsti dagurinn gaf 26 laxa!

Svavar Hávarðsson skrifar
Alls komu 26 laxar á þurrt og þeir vegnir og metnir á bökkum Blöndu og Norðurár á fyrsta veiðidegi þessa veiðisumars.
Alls komu 26 laxar á þurrt og þeir vegnir og metnir á bökkum Blöndu og Norðurár á fyrsta veiðidegi þessa veiðisumars. Svavar Hávarðsson
Opnunardagurinn var gjöfull, bæði í Borgarfirðinum og fyrir norðan. Þegar veiðimenn komu í hús eftir veiðar í Blöndu var afraksturinn 10 laxar, sá stærsti 17 pund. Í Blöndu fengust sex laxar á fyrri vaktinni en fjórir á þeirri seinni. Eins og löngum fyrr komu laxarnir úr Damminum og af Breiðunni. Stefán Páll Ágústsson, hjá Lax-á, sagði í stuttu spjalli við Veiðivísi að framhaldið lofaði góðu, töluvert væri af fiski á svæðinu og útlitið því gott.

Í Norðurá gaf seinni vaktin fimm laxa en ellefu komu á land í morgun. Því hafa stjórnarmenn og þeirra fólk þegar bætt tölur frá opnuninni í fyrra sem gaf 13 laxa. Meðalveiði þessarar aldar í Norðurá er þegar horfin sjónum en átta laxar eru meðaltalið síðan árið 2000.

Hörður Vilberg, einn stjórnarmanna SVFR, sagði að eitt og annað sé afar athyglisvert við fyrsta daginn í Norðurá. Fiskar eru að koma upp á mörgum veiðistöðum; Brotinu, Eyrinni, Bryggjunum, Skerinu og Konungsstreng en fiskur sem kom af Réttarhylsbroti vekur sérstaka athygli en sá veiðistaður er ofan við fossinn Glanna. Veiðivísir hefur ekki heimildir fyrir því að lax hafi veiðst í opnun fyrir ofan Glanna í seinni tíð. Vitað er að tíu laxar voru gengnir upp í gegnum stigann í fossinum en það segir bara hálfa söguna. Eins og vatnsstaðan er í Norðurá má vel vera að lax hafi sniðgengið stigann og farið fossinn sjálfan, svo ekkert er hægt að fullyrða um hvað mikið er af laxi á svæðinu þar fyrir ofan.

Þá vakti það einnig athygli að einn lax var „hitchaður" á Eyrinni, svo menn voru að beita ýmsum aðferðum á þessum fyrsta degi. Laxarnir sem veiddust voru flest allir á bilinu 70 til rúmlega 80 sentimetrar, sem í pundum myndi vera um 10 til 13 punda fiskar. Einhverjir voru grálúsungir en aðrir hafa gengið í ána fyrir einhverjum dögum síðan og hafa hreinsað sig af lúsinni.

Lokatölur úr ánum tveim eftir fyrsta veiðidag eru því 26 stórir og fallegir laxar. Norðurá hefur vinninginn í fjölda en Blanda hefur gefið stærsta laxinn til þessa.

Veiðivísir mun fylgjast með opnunarhollunum þar til veiðum er lokið, svo fylgist með!

Lax-á





×