Fótbolti

Ætlar Di Matteo að byrja með Ryan Bertrand í úrslitaleiknum í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Bertrand,
Ryan Bertrand, Mynd/Nordic Photos/Getty
Enskir fjölmiðlar spá því að Ryan Bertrand verði í byrjunarliði Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í München í kvöld en þessi 22 ára strákur hefur aldrei spilað leik í Meistaradeildinni áður og lék aðeins 7 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Roberto Di Matteo, stjóri Chelsea, þarf að glíma við fjarveru margra sterka leikmanna vegna bæði leikbanna og meiðsla og Ryan Bertrand er líklegur kandídat á vinstri vænginn í leikerfinu 4-2-3-1 eða leikkerfinu 4-4-2.

Di Matteo hefur áhyggjur af þeim Franck Ribery og Arjen Robben sem mega ekki fá pláss eða tíma á vængjunum til þess að splundra vörnum mótherjanna. Florent Malouda er tognaði aftan í læri og verður væntanlega ekki orðinn leikfær fyrir kvöldið.

Di Matteo færði Bertrand framar á völlinn í leik á móti Blackburn í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi þegar Malouda meiddist en Paulo Ferreira kom þá inn í vinstri bakvarðarstöðuna. Bertrand spilaði í 47 mínútur á vængnum og Di Matteo var ánægður með strákinn en Bertrand spilar vanalega sem vinstri bakvörður.

Ryan Bertrand var ekki einu sinni á bekknum í leikjunum á móti Napoli, Benfica eða Barcelona en strákurinn spilaði sex af síðustu sjö leikjum Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Það er ekki á hverjum degi sem leikmenn spila sinn fyrsta Evrópuleik í sjálfum úrslitleik Meistaradeildarinnar og það´verður því fróðlegt að sjá hvort Di Matteo þorir að henda þessum 22 ára strák út í djúpu laugina í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×