Sigurjón Sigurbjörnsson, Íslandsmeistari í 100 kílómetra hlaupi, stóð sig með ágætum í Evrópu- og heimsmeistarakeppni ofurhlaupara sem fram fór í Seregno á Ítalíu um síðustu helgi.
Sigurjón hljóp kílómetrana eitt hundrað á tímanum 8:07:43 klst sem er næstbesti tími hans. Íslandsmetið, sem Sigurjón setti á síðasta ári, er 7:59:07 klst.
Sigurjón hafnaði í 53. sæti í Evrópukeppninni en 72 hlauparar luku keppni. Sami tími skilaði honum 69. sæti í heimsmeistarakeppninni en 165 keppendur luku keppni.
Árangur Sigurjóns er athyglisverður í ljósi þess að hann var aldursforseti keppninnar. Sigurjón er 57 ára gamall.
Heimamaðurinn Giorgio Calcaterra hljóp á bestum tíma eða 6:23:20 klst og tryggði sér sigur í báðum keppnum. Nánari upplýsingar um úrslit keppninnar má sjá með því að smella hér.
Félag 100 kílómetra hlaupara á Íslandi heldur úti heimasíðu sem skoða má með því að smella hér.
