Fótbolti

Mourinho blæs á möguleika Chelsea gegn Barcelona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mourinho stýrði Chelsea á árunum 2004-2008.
Mourinho stýrði Chelsea á árunum 2004-2008. Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Real Madrid, segir fyrrum lærisveina sína hjá Chelsea eiga litla möguleika gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. Spænska liðið sé einfaldlega mun líklegra til sigurs.

Real Madrid sló Apoel Nicosia frá Kýpur út samanlagt 8-2 eftir 5-2 sigur í síðari viðureign liðanna í Madrid í gærkvöldi. Á sama tíma sló Chelsea út Benfica með 2-1 sigri á Stamford Bridge og samanlagt 3-1.

Aðspurður hvers vegna Mourinho taldi að Barcelona kæmist áfram sagði knattspyrnustjórinn litríki:

„Vegna þess að liðið er frábært. Barcelona er ekki aðeins líklegra til sigurs heldur mun líklegri," sagði Mourinho sem telur að keppnin komi til með að standa á milli sinna manna, Bæjara og Barcelona.

„Ef ég á að vera hreinskilinn tel ég að Real Madrid mæti ekki Chelsea í úrslitaleiknum. Það gæti orðið Bayern gegn Barcelona. Ég tel einfaldlega að það verði ekki Real Madrid gegn Chelsea og við vitum öll hvers vegna," sagði Mourinho sem hrósaði kýpverska liðinu Apoel fyrir sína framgöngu í Meistaradeildinni í vetur.

„Ég tel að eftir nokkur ár muni íbúar Kýpur átta sig á afreki Apoel sem stendur upp úr í Meistaradeildinni í ár," sagði Mourinho sem sagði stærra afrek fyrir kýpverska liðið að komast í 8-liða úrslit en að Real, Barcelona eða Bayern ynni titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×