KA varð bikarmeistari karla í blaki þriðja árið í röð eftir 3-1 sigur á Stjörnunni í úrslitaleik Asics bikarsins í Laugardalshöllinni. KA hefur unnið Stjörnumenn í úrslitaleiknum öll þrjú árin en félagið varð þarna bikarmeistari karla í fimmta sinn.
Stjarnan er ofar í deildarkeppninni og byrjaði úrslitaleikinn vel. Stjarnan vann fyrstu hrinuna 25-15 og var lengi yfir í annarri hrinunni. KA náði hinsvegar að vinna hana 25-21 og vann einnig næstu tvær, 25-18 og 25-21.
KA-menn kölluðu á nokkra reynslubolta fyrir úrslitahelgi bikarsins og það hafði mjög góð áhrif á liðið sem vann flottan sigur á Stjörnumönnum.
