Orkuveita Reykjavíkur (OR) tapaði ríflega 5,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er talsverður viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn var tæplega 17 milljarðar króna. Þetta kemur fram í árshlutareikningi OR sem lagður var fram í gær.
Þrátt fyrir þetta var afkoma af reglulegri starfsemi betri en á síðasta ári. Rekstrartekjur tímabilsins námu 24,4 milljörðum króna en voru 19,4 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Heildareignir OR voru 291,7 milljarðar, en voru 286,5 milljarðar á sama tíma í fyrra.
Auknar tekjur og aðhald í rekstri skýra betri afkomu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitunni. Á móti kemur óhagstæð gengisþróun og lækkun álverðs sem hefur haft verulega neikvæð áhrif á stöðu félagsins.
Haldbært fé frá rekstri OR nam 14,1 milljarði króna, og hækkaði um 4,3 milljarða króna frá fyrstu níu mánuðum síðasta árs samkvæmt árshlutareikningnum.
Í tilkynningu frá OR segir að vel hafi gengið að ná tökum á rekstrinum og skera niður kostnað. Það sé lykilatriði að fyrirtækið standi við þá aðgerðaráætlun sem gerð hafi verið í samstarfi við eigendur þess í vor. Þar segir jafnframt að þróun ytri þátta á borð við álverð og gengi sýni að fyrirtækið sé enn of viðkvæmt fyrir sveiflum af því tagi. - bj
Tap nú 5,3 milljarðar
