Og munnræpan mun ríkja ein Guðmundur Andri Thorsson skrifar 19. september 2011 10:00 Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa með sameiginlegu átaki náð að þróa nýtt lýðræðislegt gereyðingarvopn: málþóf. Slíkt hefur að vísu lengi verið tíðkað, líka af þeim sem nú fara með stjórnartaumana – og engum til sóma sem það hefur iðkað til að hindra framgang lýðræðisins með slíkri misnotkun á göfugasta ræðustól landsins – en nú á þessu septemberþingi keyrði málþófið um þverbak; röflið ríkti eitt, ofar hverri kröfu. Við fáum þá mynd af störfum þingsins að þar sé aldrei neitt sagt af viti, enginn hugsi þar heila hugsun, fólk bulli þar flissandi út í eitt. Þingmenn virðast fara eftir reglunni: að mæla óþarft eða þegja. Að ræða til að ráðaHér verðum við reyndar að undanskilja þingmenn Hreyfingarinnar sem hafa veitt ríkisstjórninni sterkt og málefnalegt aðhald og taka starf sitt augljóslega alvarlega. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa hins vegar tekið gamla málþófið og gert það að valdatæki. Það kunna þeir – að smíða sér valdatæki. Einkum hafa þeir verið fundvísir á vannýtta möguleika sem felast í fyrirspurnum og andsvörum og einhvers konar gerviumræðum. Þetta eru gömlu valdaflokkarnir sem sáu aldrei tilganginn í að ræða nokkurn hlut – vildu bara drífa í hlutunum. Nú nota þeir umræður – ekki til að ræða, heldur til að ráða. Nú spyr háttvirtur ellefti þingmaður Austurlands háttvirtan áttunda þingmann Suðurlands hvort honum finnist ekki – eins og sér – að ríkisstjórnin sé á fullkomnum villigötum í þessum tiltekna málaflokki. Háttvirtur áttundi þingmaður Suðurlands tekur nú til máls og byrjar á því að þakka háttvirtum ellefta þingmanni Austurlands fyrir að vekja máls á svo mikilsverðri spurningu og endurtekur svo það sem hinn sagði og klykkir út með því að spyrja háttvirtan fimmta þingmann Vesturlands hvort hann sé ekki sammála. Og þannig koll af kolli þar til allir eru að verða vitstola af leiðindum. Hefur svo hver nokkuð að iðja. Tvíeggjað sverðÞeim finnst þetta ógurlega skemmtilegt. Við höfum séð þingmenn hálfskríkjandi í ræðustól að halda þingstörfum í gíslingu í keppni um að halda orðinu sem lengst við að segja ekki neitt. Með þessu fá þeir það vissulega fram að ekki sé hægt að koma fram málum á Alþingi nema í sátt við þá – valdatæki. Þeir hafa líka talið okkur trú um að með þessu hafi þeir staðið vörð um sjálft Alþingi gegn ásælni forsætisráðherrans. Jamm. En eins og títt er um gereyðingarvopn þá er þetta tvíeggjað. Þegar þingmaður fer upp í ræðustól Alþingis undir því yfirskini að hann sé að ræða stjórnarskrárfrumvarpið en tekur svo að setja á langar tölur um sauðnaut – eins og þeir gerðu Ásmundur Einar Daðason og Árni Johnsen – þá hættir viðkomandi þingmaður á það að einhver utan þingsins heyri þetta og hugsi með með sér að hver sé sínum áhugamálum líkastur. Og að í hvert sinn sem kjósendur sjái þá félagsbræður, Ásmund Einar og Árna, detti þeim sauðnaut í hug. Hitt er verra: í hvert sinn sem þingmaður er svona fruntalegur í málþófi sínu er hann að sýna Alþingi Íslendinga vanvirðingu. Hann er að sýna ræðustólnum vanvirðingu; sögunni; samkomunni; vinnufélögum sínum; kjósendum sínum; kjósendum annarra flokka; sjálfu lýðræðinu í landinu. Það hvarflar að manni að viðkomandi láti svona vegna þess að hann ber ekki sjálfur virðingu fyrir starfi sínu sem þingmaður. Svona framkoma vitnar um slæma sjálfsmynd og minnir á ólátabelgi í erfiðum bekkjum sem hafa fengið að vita um að þeir séu óalandi og óferjandi og taka að hegða sér samkvæmt því. En þetta er misskilningur. Það er virðingarstaða að vera alþingismaður – það er ábyrgðarstaða. Við höfum kosið alþingismenn til þess að setja sig inn í mál svo vel sem þeim eru unnt fyrir okkar hönd og kjósa svo um þau eftir sannfæringu sinni, hugsjónum, lífsafstöðu, flokki. Við kjósum þá sem við treystum til þess vandaverks. Við kjósum ólíka flokka eftir ólíkri lífssýn okkar og hugmyndafræði. Sum okkar aðhyllast framtak einstaklingsins og telja að hver sé sinnar gæfu smiður og eigi að njóta verka sinna skattlítið, óréttlætið muni alltaf fylgja mannlífinu og viss misskipting sé kannski bara réttlát. Þau kjósa hægri flokkana. Sauðinn og nautið. Önnur aðhyllast jöfnuð og réttláta skiptingu gæða og tækifæra í lífinu. Þau kjósa vinstri flokkana. Þeir flokkar sem ná meirihluta á þingi fara svo með landstjórnina; þar gegnir stjórnarandstaða mikilsverðu hlutverki við að ræða mál og finna rétta niðurstöðu. Þegar þingmaður stígur í ræðustól Alþingis til þess að tjá sig um einhver málefni verður hann að muna að hann er fulltrúi þjóðarinnar. Hann er ekki fulltrúi Bændasamtakanna eða LÍU eða ASÍ eða Samtaka iðnaðarins – ekki einu sinni fulltrúi Kristjáns Loftssonar. Hann er fulltrúi kjósenda. Hann talar þar í okkar umboði, fyrir okkar munn, og af virðingu við okkur, þjóð sína, ber honum að vanda sig við það eins og hann getur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun Viltu koma að kenna? Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa með sameiginlegu átaki náð að þróa nýtt lýðræðislegt gereyðingarvopn: málþóf. Slíkt hefur að vísu lengi verið tíðkað, líka af þeim sem nú fara með stjórnartaumana – og engum til sóma sem það hefur iðkað til að hindra framgang lýðræðisins með slíkri misnotkun á göfugasta ræðustól landsins – en nú á þessu septemberþingi keyrði málþófið um þverbak; röflið ríkti eitt, ofar hverri kröfu. Við fáum þá mynd af störfum þingsins að þar sé aldrei neitt sagt af viti, enginn hugsi þar heila hugsun, fólk bulli þar flissandi út í eitt. Þingmenn virðast fara eftir reglunni: að mæla óþarft eða þegja. Að ræða til að ráðaHér verðum við reyndar að undanskilja þingmenn Hreyfingarinnar sem hafa veitt ríkisstjórninni sterkt og málefnalegt aðhald og taka starf sitt augljóslega alvarlega. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa hins vegar tekið gamla málþófið og gert það að valdatæki. Það kunna þeir – að smíða sér valdatæki. Einkum hafa þeir verið fundvísir á vannýtta möguleika sem felast í fyrirspurnum og andsvörum og einhvers konar gerviumræðum. Þetta eru gömlu valdaflokkarnir sem sáu aldrei tilganginn í að ræða nokkurn hlut – vildu bara drífa í hlutunum. Nú nota þeir umræður – ekki til að ræða, heldur til að ráða. Nú spyr háttvirtur ellefti þingmaður Austurlands háttvirtan áttunda þingmann Suðurlands hvort honum finnist ekki – eins og sér – að ríkisstjórnin sé á fullkomnum villigötum í þessum tiltekna málaflokki. Háttvirtur áttundi þingmaður Suðurlands tekur nú til máls og byrjar á því að þakka háttvirtum ellefta þingmanni Austurlands fyrir að vekja máls á svo mikilsverðri spurningu og endurtekur svo það sem hinn sagði og klykkir út með því að spyrja háttvirtan fimmta þingmann Vesturlands hvort hann sé ekki sammála. Og þannig koll af kolli þar til allir eru að verða vitstola af leiðindum. Hefur svo hver nokkuð að iðja. Tvíeggjað sverðÞeim finnst þetta ógurlega skemmtilegt. Við höfum séð þingmenn hálfskríkjandi í ræðustól að halda þingstörfum í gíslingu í keppni um að halda orðinu sem lengst við að segja ekki neitt. Með þessu fá þeir það vissulega fram að ekki sé hægt að koma fram málum á Alþingi nema í sátt við þá – valdatæki. Þeir hafa líka talið okkur trú um að með þessu hafi þeir staðið vörð um sjálft Alþingi gegn ásælni forsætisráðherrans. Jamm. En eins og títt er um gereyðingarvopn þá er þetta tvíeggjað. Þegar þingmaður fer upp í ræðustól Alþingis undir því yfirskini að hann sé að ræða stjórnarskrárfrumvarpið en tekur svo að setja á langar tölur um sauðnaut – eins og þeir gerðu Ásmundur Einar Daðason og Árni Johnsen – þá hættir viðkomandi þingmaður á það að einhver utan þingsins heyri þetta og hugsi með með sér að hver sé sínum áhugamálum líkastur. Og að í hvert sinn sem kjósendur sjái þá félagsbræður, Ásmund Einar og Árna, detti þeim sauðnaut í hug. Hitt er verra: í hvert sinn sem þingmaður er svona fruntalegur í málþófi sínu er hann að sýna Alþingi Íslendinga vanvirðingu. Hann er að sýna ræðustólnum vanvirðingu; sögunni; samkomunni; vinnufélögum sínum; kjósendum sínum; kjósendum annarra flokka; sjálfu lýðræðinu í landinu. Það hvarflar að manni að viðkomandi láti svona vegna þess að hann ber ekki sjálfur virðingu fyrir starfi sínu sem þingmaður. Svona framkoma vitnar um slæma sjálfsmynd og minnir á ólátabelgi í erfiðum bekkjum sem hafa fengið að vita um að þeir séu óalandi og óferjandi og taka að hegða sér samkvæmt því. En þetta er misskilningur. Það er virðingarstaða að vera alþingismaður – það er ábyrgðarstaða. Við höfum kosið alþingismenn til þess að setja sig inn í mál svo vel sem þeim eru unnt fyrir okkar hönd og kjósa svo um þau eftir sannfæringu sinni, hugsjónum, lífsafstöðu, flokki. Við kjósum þá sem við treystum til þess vandaverks. Við kjósum ólíka flokka eftir ólíkri lífssýn okkar og hugmyndafræði. Sum okkar aðhyllast framtak einstaklingsins og telja að hver sé sinnar gæfu smiður og eigi að njóta verka sinna skattlítið, óréttlætið muni alltaf fylgja mannlífinu og viss misskipting sé kannski bara réttlát. Þau kjósa hægri flokkana. Sauðinn og nautið. Önnur aðhyllast jöfnuð og réttláta skiptingu gæða og tækifæra í lífinu. Þau kjósa vinstri flokkana. Þeir flokkar sem ná meirihluta á þingi fara svo með landstjórnina; þar gegnir stjórnarandstaða mikilsverðu hlutverki við að ræða mál og finna rétta niðurstöðu. Þegar þingmaður stígur í ræðustól Alþingis til þess að tjá sig um einhver málefni verður hann að muna að hann er fulltrúi þjóðarinnar. Hann er ekki fulltrúi Bændasamtakanna eða LÍU eða ASÍ eða Samtaka iðnaðarins – ekki einu sinni fulltrúi Kristjáns Loftssonar. Hann er fulltrúi kjósenda. Hann talar þar í okkar umboði, fyrir okkar munn, og af virðingu við okkur, þjóð sína, ber honum að vanda sig við það eins og hann getur.