Veiði

Gleymir stund og stað við árbakkann

Þórdís og Bjarni Þórdís Klara Bridde og eiginmaður hennar, Bjarni Júlíusson, við Eyrina í Norðurá.
Þórdís og Bjarni Þórdís Klara Bridde og eiginmaður hennar, Bjarni Júlíusson, við Eyrina í Norðurá. Mynd/Úr einkasafni
Þegar vorar fer mig strax að klæja í puttana að komast út í náttúruna. Og þegar ég horfi á læki eða vötn langar mig að fara að kasta," segir veiðikonan Þórdís Klara Bridde. Hún segir það ómótstæðilega tilfinningu að standa við árbakka með stöng í hönd.

„Maður hverfur bara inn í sinn eigin heim, hugsar ekki um annað en vatnið og fiskinn. Sest kannski niður á árbakkann og gefur sér tíma til að velta fyrir sér hvaða flugu fiskurinn tekur. Svo er bara nóg að sitja og horfa á vatnið. Það eitt er yndislegt," segir Þórdís Klara.

Eiginmaður Þórdísar Klöru er Bjarni Júlíusson, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur. Þau hjónin kynntust í gegnum þetta sameiginlega áhugamál. „Ég var að vinna í veiðihúsinu uppi í Norðurá og kynntist honum þar. Síðan höfum við farið mikið saman að veiða á sumrin. Við reynum líka að fara einu sinni á hausti með krakkana okkar. Þeim finnst þetta jafn æðislegt og okkur."

Hver árstíð hefur sinn sjarma, að mati Þórdísar Klöru, og veita allar tilefni til að njóta náttúrunnar. „Það er sérlega gaman að fylgjast með gróðrinum og fuglalífinu lifna við á vorin. Svo líður á sumarið og þá nýtur maður þess að vera úti í náttúrunni langt fram eftir kvöldi. Haustið með sína fallegu liti er líka fagurt og frost og snjór hefur sinn sjarma líka. Náttúran býður upp á svo margt. Það er bara okkar að velja hvernig við kjósum að njóta hennar."






×