Óbyggðirnar kalla Guðmundur Andri Thorsson skrifar 5. september 2011 06:00 Þegar Woody Guthrie var orðinn leiður á að heyra lag Irvings Berlin God Bless America samdi hann þjóðsöng hinna landlausu, This land is your land, um þá Ameríku sem allir eiga og þar sem engum óviðkomandi er bannaður aðgangur því að allir eru viðkomandi: This land was made for you and me. Eiginlega finnst mér þessi söngur svara því ágætlega hvað manni eigi að finnast um áform Huangs Nubo um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og landflæmi sem því tilheyrir að sögn. Þetta land er þitt land, þetta land er mitt land, frá Gerpi að Gjögri, frá Hofi að Hörpu … Eða kannski: Komi þeir sem koma vilja – fari þeir sem fara vilja – veri þeir sem vera vilja mér og mínum að meinalausu. Mitt er þitt og þitt er mitt – og hans og hennar og þeirra. Sum sé: Það kann að vera fagnaðarefni að aðvífandi maður skuli vilja skapa eitthvað einstakt og skemmtilegt þar nyrðra þó að ekki sé það nú kannski augljós afþreyingarkostur að bregða sér í golf á Grímsstaði á Fjöllum í nóvember – milli éljanna. Allt um það: sagan sem rakin var í Fréttablaðinu um helgina af Eymundi bónda í Vallarnesi er klassískt dæmi um það hversu hollt það getur verið þegar utanaðkomandi fólk sér möguleika lands sem heimamenn koma ekki auga á. Sagan af Thor Jensen á sínum tíma er önnur – Ottó Wathne og ýmsum öðrum útlenskum þjóðþrifamönnum. Rækti þeir sem rækta vilja. En við höfum líka söguna af Baróninum á Hvítárvöllum og ýmsar aðrar sögur af gæfuleysi manna sem hér höfðu uppi stórkostleg áform sem einhvern veginn fuku út í veður og vind þegar komu „út fyrir kaupstaði íslenskt í veður,“ eins og Bjarni Thor hreytti út úr sér í kvæði sínu um Ísland. Þarna gildir það sama og löngum: að hafa staðfasta trú á landinu og sér en ekki glórulausa, sjá það eins og það er en ekki í hillingum, dvelja ekki í skýjaborgum. Og hitt: að vera vinnusamur, vakinn og sofinn í því sem maður er að gera. Við höfum ýmis átakanleg dæmi frá undanförnum árum um misheppnuð jarðarkaup íslensku pappírsauðmannanna á umliðnum árum sem keypt hafa vildisjarðir og merkisstaði á uppsprengdu verði en síðan reynst þær landeyður að sinna þeim lítt. Yfir þessum kaupum höfum við glott af íslenskri meinfýsi en þegar kemur kínverskur maður með fullar hendur fjár og vill ólmur breyta Grímsstöðum á Fjöllum í ferðamannaparadís segjum við humm. Er það alveg sanngjarnt? Kannski ekki. Kaupi þeir sem kaupa vilja. En hvílíkt ógnarflæmi sem maðurinn ætlar sér að kaupa! Uppi á reginfjöllum! Í miðju einhvers allsherjar al-einskis. Skyldi maður þá kannski eiga von á því að sjá Huang Nubo í réttarsal veifandi Landnámu í landamerkjaþjarki við Óbyggðanefnd? Er ekki eitthvað bogið við þessa ógnarlegu landflæmiseign sem hér hefur tíðkast frá ómunatíð? Sagt var um mann: Honum varð allt að tuði, og svo maður taki upp það merki: Þarf þetta allt að vera svona stórkostlegt, svona stórbrotið, svona margir milljarðar? Erum við ekkert orðin þreytt á stórhug? Á milljarðafélögunum? Væri það alveg óhugsandi fyrir manninn að prófa sig kannski aðeins áfram fyrst með það hvernig hugmyndir hans ganga á Íslandi, hvernig honum gengur að vinna með þessari þrasgjörnu og mislyndu tuðþjóð? Kannski byrja á að kaupa gistiheimili á Egilsstöðum og reka það í tvö ár og sjá hvernig það gengur? Komi þeir sem koma vilja. Erlend fjárfesting er okkur lífsnauðsyn. Og ekki bara peninganna vegna – aldrei er neitt bara „peninganna vegna“ því að peningar eru bara afl þeirra hluta er skal gera – heldur vegna þess að við þurfum utanaðkomandi framtak, dáð og andrúmsloft. Íslenskt samfélag staðnar og trénar upp og deyr úr leiðindum, fátækt og tuði ef það er ekki sífellt flæði milli þess og annarra ríkja sem komið hafa sér niður á manneskjulegt markaðskerfi eins og Evrópuríkin í kringum okkur hafa gert. Sífellt flæði: í viðskiptum, hugmyndum, listum, menntun, peningum, hugviti, varningi – og siðferði. En það skiptir máli við hvaða þjóðir við eigum einkum í viðskiptum. Í Norður-Evrópu var bæði öflugt einstaklingsframtak og skilningur á nauðsyn góðra rekstraskilyrða og sterk verklýðshreyfing á tuttugustu öld sem fært hafa þeim ríkjum meiri velmegun og betri almenn lífskjör en víðast hvar, þótt vissulega séu blikur á lofti út af of lausbeisluðum kapítalisma síðustu tuttugu árin. Þar eru réttindi verkafólks virt og samtakamáttur verkalýðshreyfingarinnar slíkur að hyggist einhver brjóta á rétti launafólks er lagaumhverfið slíkt að viðkomandi kemst ekki upp með það. Lýðræðisríki Norður-Evrópu njóta þess að þar hafa hvorki ofstopafullir auðhyggjumenn né kommúnistar verið ýkja áhrifamiklir. Þessum löndum hefur ýmist verið stjórnað af hófsömum hægri flokkum með félagslega slagsíðu eða sósíaldemókratískum flokkum. Afraksturinn af því stjórnarfari er sterkur samfélagssáttmáli um tiltekin verðmæti og virðingu fyrir einstaklingum og félagsheildum. Stjórnarfar skiptir máli. Að standa í þakkarskuld við einræðisríki – er það sniðugt? Hvað töpuðu Þjóðverjar aftur mörgum milljörðum á íslenskum athafnamönnum? Var það ekki sjö þúsund? Hversu mörg Icesave eru það? Forseti Íslands lýsir á alþjóðavettvangi þeirri vinaþjóð og öðrum evrópskum vinaþjóðum sem „fjandsamlegum“. Tali hver fyrir sig. Og hvað eigum við að gera við hann Nubo kallinn sem vill eignast þetta flæmi fyrir norðan? Ég veit það ekki. Kannski að benda honum á að prófa að reka gistiheimili í Hólminum eitt sumar og sjá hvernig gengur? Og nota tækifærið til að klára almennilega þessi þjóðlendumál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun Viltu koma að kenna? Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun
Þegar Woody Guthrie var orðinn leiður á að heyra lag Irvings Berlin God Bless America samdi hann þjóðsöng hinna landlausu, This land is your land, um þá Ameríku sem allir eiga og þar sem engum óviðkomandi er bannaður aðgangur því að allir eru viðkomandi: This land was made for you and me. Eiginlega finnst mér þessi söngur svara því ágætlega hvað manni eigi að finnast um áform Huangs Nubo um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og landflæmi sem því tilheyrir að sögn. Þetta land er þitt land, þetta land er mitt land, frá Gerpi að Gjögri, frá Hofi að Hörpu … Eða kannski: Komi þeir sem koma vilja – fari þeir sem fara vilja – veri þeir sem vera vilja mér og mínum að meinalausu. Mitt er þitt og þitt er mitt – og hans og hennar og þeirra. Sum sé: Það kann að vera fagnaðarefni að aðvífandi maður skuli vilja skapa eitthvað einstakt og skemmtilegt þar nyrðra þó að ekki sé það nú kannski augljós afþreyingarkostur að bregða sér í golf á Grímsstaði á Fjöllum í nóvember – milli éljanna. Allt um það: sagan sem rakin var í Fréttablaðinu um helgina af Eymundi bónda í Vallarnesi er klassískt dæmi um það hversu hollt það getur verið þegar utanaðkomandi fólk sér möguleika lands sem heimamenn koma ekki auga á. Sagan af Thor Jensen á sínum tíma er önnur – Ottó Wathne og ýmsum öðrum útlenskum þjóðþrifamönnum. Rækti þeir sem rækta vilja. En við höfum líka söguna af Baróninum á Hvítárvöllum og ýmsar aðrar sögur af gæfuleysi manna sem hér höfðu uppi stórkostleg áform sem einhvern veginn fuku út í veður og vind þegar komu „út fyrir kaupstaði íslenskt í veður,“ eins og Bjarni Thor hreytti út úr sér í kvæði sínu um Ísland. Þarna gildir það sama og löngum: að hafa staðfasta trú á landinu og sér en ekki glórulausa, sjá það eins og það er en ekki í hillingum, dvelja ekki í skýjaborgum. Og hitt: að vera vinnusamur, vakinn og sofinn í því sem maður er að gera. Við höfum ýmis átakanleg dæmi frá undanförnum árum um misheppnuð jarðarkaup íslensku pappírsauðmannanna á umliðnum árum sem keypt hafa vildisjarðir og merkisstaði á uppsprengdu verði en síðan reynst þær landeyður að sinna þeim lítt. Yfir þessum kaupum höfum við glott af íslenskri meinfýsi en þegar kemur kínverskur maður með fullar hendur fjár og vill ólmur breyta Grímsstöðum á Fjöllum í ferðamannaparadís segjum við humm. Er það alveg sanngjarnt? Kannski ekki. Kaupi þeir sem kaupa vilja. En hvílíkt ógnarflæmi sem maðurinn ætlar sér að kaupa! Uppi á reginfjöllum! Í miðju einhvers allsherjar al-einskis. Skyldi maður þá kannski eiga von á því að sjá Huang Nubo í réttarsal veifandi Landnámu í landamerkjaþjarki við Óbyggðanefnd? Er ekki eitthvað bogið við þessa ógnarlegu landflæmiseign sem hér hefur tíðkast frá ómunatíð? Sagt var um mann: Honum varð allt að tuði, og svo maður taki upp það merki: Þarf þetta allt að vera svona stórkostlegt, svona stórbrotið, svona margir milljarðar? Erum við ekkert orðin þreytt á stórhug? Á milljarðafélögunum? Væri það alveg óhugsandi fyrir manninn að prófa sig kannski aðeins áfram fyrst með það hvernig hugmyndir hans ganga á Íslandi, hvernig honum gengur að vinna með þessari þrasgjörnu og mislyndu tuðþjóð? Kannski byrja á að kaupa gistiheimili á Egilsstöðum og reka það í tvö ár og sjá hvernig það gengur? Komi þeir sem koma vilja. Erlend fjárfesting er okkur lífsnauðsyn. Og ekki bara peninganna vegna – aldrei er neitt bara „peninganna vegna“ því að peningar eru bara afl þeirra hluta er skal gera – heldur vegna þess að við þurfum utanaðkomandi framtak, dáð og andrúmsloft. Íslenskt samfélag staðnar og trénar upp og deyr úr leiðindum, fátækt og tuði ef það er ekki sífellt flæði milli þess og annarra ríkja sem komið hafa sér niður á manneskjulegt markaðskerfi eins og Evrópuríkin í kringum okkur hafa gert. Sífellt flæði: í viðskiptum, hugmyndum, listum, menntun, peningum, hugviti, varningi – og siðferði. En það skiptir máli við hvaða þjóðir við eigum einkum í viðskiptum. Í Norður-Evrópu var bæði öflugt einstaklingsframtak og skilningur á nauðsyn góðra rekstraskilyrða og sterk verklýðshreyfing á tuttugustu öld sem fært hafa þeim ríkjum meiri velmegun og betri almenn lífskjör en víðast hvar, þótt vissulega séu blikur á lofti út af of lausbeisluðum kapítalisma síðustu tuttugu árin. Þar eru réttindi verkafólks virt og samtakamáttur verkalýðshreyfingarinnar slíkur að hyggist einhver brjóta á rétti launafólks er lagaumhverfið slíkt að viðkomandi kemst ekki upp með það. Lýðræðisríki Norður-Evrópu njóta þess að þar hafa hvorki ofstopafullir auðhyggjumenn né kommúnistar verið ýkja áhrifamiklir. Þessum löndum hefur ýmist verið stjórnað af hófsömum hægri flokkum með félagslega slagsíðu eða sósíaldemókratískum flokkum. Afraksturinn af því stjórnarfari er sterkur samfélagssáttmáli um tiltekin verðmæti og virðingu fyrir einstaklingum og félagsheildum. Stjórnarfar skiptir máli. Að standa í þakkarskuld við einræðisríki – er það sniðugt? Hvað töpuðu Þjóðverjar aftur mörgum milljörðum á íslenskum athafnamönnum? Var það ekki sjö þúsund? Hversu mörg Icesave eru það? Forseti Íslands lýsir á alþjóðavettvangi þeirri vinaþjóð og öðrum evrópskum vinaþjóðum sem „fjandsamlegum“. Tali hver fyrir sig. Og hvað eigum við að gera við hann Nubo kallinn sem vill eignast þetta flæmi fyrir norðan? Ég veit það ekki. Kannski að benda honum á að prófa að reka gistiheimili í Hólminum eitt sumar og sjá hvernig gengur? Og nota tækifærið til að klára almennilega þessi þjóðlendumál.