Tónlist

Heimsfrumsýning á Youtube

Nýjasta myndband söngkonunnar verður frumsýnt á Youtube seinna í mánuðinum.
Nýjasta myndband söngkonunnar verður frumsýnt á Youtube seinna í mánuðinum.
Björk Guðmundsdóttir heimsfrumsýnir myndband við nýjasta lagið sitt, Crystalline, á síðunni Youtube í lok mánaðarins.

Þetta verður í fyrsta sinn sem hún frumsýnir myndband á Youtube og bíða aðdáendur hennar spenntir eftir útkomunni. Leikstjóri er Frakkinn Michael Gondry, samstarfsmaður Bjarkar til margra ára. „Hún er vön að gera rosaleg myndbönd og þetta er brjálæðislegt,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves-hátíðarinnar, sem sá myndbandið fyrir skömmu.

Björk er þessa dagana að kynna væntanlega plötu sína og hefur hún verið dugleg að veita erlendum fjölmiðlum viðtöl, þar á meðal tímaritunum Dazed and Confused og Wired þar sem hún prýðir forsíðurnar.

Söngkonan mætir á Airwaves-hátíðina um miðjan október með tvenna Biohpilia-tónleika í farteskinu og heldur svo ferna til viðbótar, alla í Hörpunni. Hingað til hefur hún aðeins stigið á svið á menningarhátíðinni í Manchester við frábærar undirtektir. „Þetta verður væntanlega flóknasta og flottasta uppsetning sem hefur verið gerð hér á landi, með fullri virðingu fyrir Clapton-tónleikunum sem ég hélt,“ segir Grímur.

Almenn miðasala á tónleikana hefst fimmtudaginn 14. júlí kl. 12 á Icelandairwaves.is og Harpa.is. Aðeins 700 manns komast á hverja tónleika. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.