Stúlkur, fleygið plokkaranum og leyfið augabrúnunum að vaxa villtum. Á tískupöllunum í haust mátti víða sjá fyrirsætur bera ýktar og dökkar augabrúnir með sóma og eiga augabrúnirnar því að taka vaxtarkipp með gróðrinum í vor.
Fyrirsætur sem gengu pallana hjá tískuhúsum á borð við Proenza Schouler og Diane von Furstenberg voru lítið farðaðar og settu augabrúnirnar sterkan svip á heildarútkomuna. Hjá Christian Dior og John Galliano báru fyrirsæturnar þungan augnfarða sem gerði heildarsvipinn dramatískan.
Tískuhúsið Marni fékk ekki nóg af því góða og skörtuðu fyrirsæturnar auka augabrún sem hafði verið teiknuð á með blýanti.- sm

