Rory McIlroy er efstur að loknum fyrsta keppnisdegi á Dubai meistaramótinu í golfi sem er hluti af Evrópumótaröðinni. Hinn 21 árs gamli Norður-Íri lék á 65 höggum eða 7 höggum undir pari og er hann tveimur höggum á undan Spánverjanum Sergio Garcia og Thomas Aiken frá Suður-Afríku.
Tiger Woods fékk örn (-2) á 18. brautinni en hann er í 27. sæti á 71 höggi eða 1 höggi undir pari. Woods var í ráshóp með Martin Kaymer frá Þýskalandi og Lee Westwood frá Englandi en þeir eru í þremur efstu sætum heimslistans.
Westwood í því efsta, Kaymer í öðru og Woods í þriðja. Woods hefur ekki sigrað á golfmóti í 15 mánuði og hann ætlar sér stóra hluti á þessu ári.
Westwood er þremur höggum undir pari (69) og Kaymer er á sama skori. Þeir eru í 10.-18. sæti.