Veiði

Hugmynd að lausn varðandi rjúpnaveiðar

Karl Lúðvíksson skrifar
Í frétt hér á Vísi í dag er fjallað um rannsóknir Náttúrufræðistofnunar á rjúpunni og segir í greinni: "Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar benda til þess að rjúpnastofnin sé mun minni nú en fyrir áratugum. Auk þess komu talningar á stofninum í vor verr út en búist var við. Haustið 2010 var veiðistofninn áætlaður 850.000 fuglar, en er í ár metinn aðeins 350.000 fuglar. Þessar sveiflur í stofninum hafa ekki verið skýrðar með nákvæmum hætti, en umræðan hefur helst snúist um afrán fálka og skotveiði manna".

Það er vissulega áhyggjuefni þegar staðan er eins og hún er.  Þessi gífurlega dýfa sem stofninn er að taka getur verið hluti af sveiflum í stofninum sem á sér stað á um 10 ára fresti.  Háværar eru þær raddir friðunarsinna sem vilja stöðva rjúpnaveiðar alveg, aðrir leggja til tímabundna friðun.  En það er önnur lausn sem mér finnst blasa við en engin lagt til. 

Tillagan er þessi:

Að landinu væri skipt upp í nokkur svæði og þar færi fram árleg talning á rjúpu.  Af þessu hlýst aukinn kostnaður sem ég held að veiðimenn séu alveg tilbúnir til að bera í stað þess að fá á sig algjöra friðun.  Niðurstöður talningar á hverju svæði segja til um ástand stofnins.  Ef stofninn er undir einhverju lágmarki sem ákveðið er, er svæðinu lokað í 1-2 ár.  Ef stofninn er stærri er svæðið opið.  Þetta nær yfir jafnt eignarlönd og afrétt.  En þar sem rjúpann getur flutt sig milli stórra svæða er þetta ekkert fullkominn lausn en þetta er kannski skárra og rökréttara en algjör friðun.  Þetta þýðir aukið álag á önnur svæði en það má líka leysa það.  Sýslumannsembættin sem hafa með hólfin að gera úthluta ákveðnum fjölda leyfa á hverju svæði þar sem menn sækja um á landsvísu og það er dregið (sbr hreindýraveiðar).

Veiðimálastofnun sér um að ákveða stærð og legu hólfanna ásamt því að koma þeim upplýsingum á framfæri á hverju hausti hvaða svæði eru opin og hvaða svæði eru lokuð.

Við veiðimenn verðum að opna augun fyrir því að það er ekkert sjálfsagt að geta gengið í þessa bráð sem rjúpann er án þess að gæta hófs og vera virkir í verndun.  Langflestir veiðimenn veiða í sig og sína fjölskyldu fyrir jólin en því miður eru dæmin allt of mörg um menn sem veiða nokkur hundruð rjúpur á hverju hausti og selja á svörtum markaði þrátt fyrir bann um slíkt.  Það er algjör óvirðing í garð þeirra sem vilja ganga varlega að stofninum og ganga að því vísu að geta veitt á hverju hausti og haldið í hefðina að borða rjúpur.

Gætum hófs við veiðar og virðum bráðina.








×