Veiði

Tungulækur að vakna og stórfiskar í Jöklu og Minnivallalæk

Karl Lúðvíksson skrifar
Mynd af www.strengir.is
Hér er frétt sem við fengum frá Þresti Elliðasyni hjá Strengjum.  Góður gangur hefur verið á veiðisvæðunum hjá þeim og nú er sjóbirtingstíminn framundan svo það er nóg í gangi fyrir veiðimenn í dag.  Hér er fréttin frá Þresti:

"Það er ekki bara lax í okkar ám og eftir rólegan ágúst er loks að koma sjóbirtingur í Tungulæk. Í gærkvöldi sást töluvert líf á Breiðunni efst í læknum og fiskur að stökkva um hylinn og upp í fossinn þar. Náðu veiðimenn þá 5 sjóbirtingum og misstu fleirri. Mikið vatn er í læknum og erfitt er að finna fisk en vonandi með kólnandi veðri á næstunni fer að sjatna vatnið í honum. Tungulækur er án vafa ein besta sjóbirtingsá landsins og verður spennandi að fylgjast með þróunni á næstu dögum og vikum.

Og ekki hefur frést mikið af Minnivallalæk en fastaholl erlendra veiðimanna gerðu yfirleitt góða veiði á agnarsmáar þurrflugur og púpur í læknum í júlí og snemma í ágúst. Einn þeirra var daninn Mogens Nielsen sem setti í á litla púpu í meterslangan urriða sem vóg 7 kg og veiddist í Stöðvarhyl. Hann hefur veitt víða um heim silung en þetta er auðvitað hans langstærsti urriði og svona höfðingjar er það sem gerir Minnivallalæk svo einstakan, það er ekki fjöldinn  heldur stærð fiska þarna!

Og laxveiðin er með miklum ágætum á ám okkar fyrir austan í Breiðdalsá og Jöklu og ekkert lát á göngum laxa í báðar árnar. Það sem vekur athygli er stærð þeirra því enn eru það flesti stórlaxar þó að smálaxinn sé töluvert farin að koma líka núna síðla í ágúst. Og á Jöklusvæðinu hafa sést nokkir risar um og yfir meter sem sett hefur verið í en ekki landað ennþá, en það er bara tímaspursmál hvenær 20 punda múrinn verður rofin þar. Til dæmis upp í efsta veiðistaðnum Steinboga setti erlendur veiðimaður nýlega  í þrjá slíka sem allir fóru niður fyrir hylinn og ekki er hægt að fylgja þeim eftir og ýmist réttu þeir upp krókana eða slitu í átökunum að sögn leiðsögumanna!

Og veiðin gengur upp og niður í Hrútafjarðará, t.d fékk eitt holl 25 laxa nýlega en næsta á eftir einungis tvo laxa! En töluverður lax er í Hrútu og verður fjör er rignir næst að sögn þeirra sem verið hafa í ánni".










×