Veiði

Metsumar í vændum í Svalbarðsá?

Mynd af www.hreggnasi.is
,Ég er búinn að vera leiðsögumaður við Svalbarðsá um fimm ára skeið og ég hef ekki fyrr séð jafn mikið af laxi í ánni og núna. Laxinn er dreifður um alla ána. Gljúfrin eru pökkuð af laxi og það er einnig mjög mikið af laxi í neðri hluta árinnar. Ég trúi ekki öðru en að þetta verði enn eitt metsumarið en mesta veiðin í ánni var í fyrrasumar er 504 laxar voru færðir til bókar."Þetta segir Stefán Hrafnsson leiðsögumaður en hann er nú nýbúinn að aðstoða hóp breskra veiðimanna í Svalbarðsá. Líkt og fram kemur hér annars staðar á síðunni þá hafa veiðimennirnir fengið frábæra veiði og enduðu með 80 laxa á 4 dögum og þar af voru 70-75% tveggja ára lax.

,,Þetta voru þrír breskir veiðimenn með börnin sín með sér og veiddu allir í hópnum gríðarlega vel. Ég var með 11 ára gamlan strák, sem ekki hafði áður veitt lax, og hann veiddi 7 laxa og þar af 5 tveggja ára fiska. Hér var líka 15 ára stúlka sem fékk 13 laxa og í raun var veiðin þessa seinusta daga álfgert brjálæði en hópurinn veiddi á fjórum dögum 8, 24, 21, 19 og 8 laxa á seinustu vaktinni eða samtals 80 laxa. Allir þessir laxar hafa veiðst á litlar flugur og litlar gárutúpur hafa verið að skila sínu," segir Stefán en til marks um stuðið í Svalbarðsá þessa dagana nefnir hann að í hollinu á undan hafi fengist 34 laxar á þremur dögum og menn hafi verið hæstánægðir með þann afla.

Mynd af www.hreggnasi.is
Nú hafa veiðst um 340 laxar í Svalbarðsá (þar af 140 laxar síðan 31. júlí) og stærsti laxinn er 101 sm nýgenginn fiskur sem fékkst í Neðri Eyrarhyl í gær á Sunray en einnig veiddist nýlega 100 sm lax í Forseta, veiðistað nr. 17. Smálax er farinn að ganga og töluvert er um 60-67 sm hænga en lengst af var aflinn nánast eingöngu tveggja ára stórlax. Verulega hefur kólnað í Þistilfirðinum seinustu daga en hitinn er búin að vera um 6-8 gráður og gengur á með skúrum.

Einnig er gaman að nefna að þeir þrír veiðimenn sem nú eru að veiðum hafa tekið um 70 laxa í erfiðum aðstæðum og voru t.d. feðgar með "double hook up" í ósnum í gærkveldi en þar veiddust þrír laxar á stuttum tíma eftir flóðið.

Birt með góðfúslegu leyfi Hreggnasa ehf






×